151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að freista þess að biðja hv. þingmann að sýna mér þá virðingu að svara spurningum. Ég er ekki að ræða um aðalskipulag Reykjavíkurborgar, ég spurði ekki einu orði um það. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður getur ekki staðið betur fyrir máli sínu en þetta þá er spurning hvort málatilbúnaðurinn sé ekki reistur á sandi.

Hv. þingmaður vill spyrja þjóðina þeirrar spurningar sem ég las. Ég spurði hv. þingmann en hann kýs að svara mér ekki: Hver er munurinn á spurningunni sem hann vill spyrja þjóðina — þar er ekki minnst einu orði á aðalskipulag, ekki neitt — og því sem stendur í samkomulaginu sem búið er að skrifa undir? Hvernig stendur á því að þessi gamli draugur kemur alltaf reglulega upp, þar sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður er fremstur í flokki í að ganga inn á skipulagsvald sveitarfélags, af því að það hentar hans hugmyndum, en er kannski ekki til í það í öðrum málum? Það er umræða sem ég ætlaði ekki að fara út í. Þær umræður áttum við hv. þingmaður hér saman í vor og þarf ekki að endurtaka það. Hvernig stendur á því að ekki er minnst einu orði á það í tillögunni hver staðan er í málinu núna? Var bara ýtt aftur á „print“ frá því sem var í fyrra? Hvernig stendur á því að hv. þingmaður vill bera undir þjóðina nákvæmlega sömu spurningu og borgin og ráðherrar í ríkisstjórn, sem ég og hv. þingmaður styðjum báðir, eru búin að semja um? Eru fleiri samkomulög sem hæstv. ráðherrar hafa gert í þessari ríkisstjórn sem hv. þingmaður vill að við berum svo undir þjóðina?