151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum.

36. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum. Þessi tillaga hefur verið í smíðum í dálítinn tíma enda rakaskemmdir í fasteignum víðfeðmt, flókið og dýrt vandamál og heilsufarsvandamál tengd myglu oft mjög alvarleg. Því höfum við farið í nokkra hringi með útfærslu tillögunnar. Þetta er flókið mál, miklu flóknara en ég hélt þegar ég byrjaði í þessu ferli, en ég tel að hægt sé að nýta þessa útfærslu tillögunnar sem grundvöll að mjög þörfum endurbótum á því regluverki sem er til staðar þegar rakaskemmdir koma í ljós í fasteignum.

Tillagan felur hæstv. félags- og barnamálaráðherra að leggja til þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að takast á við sex tölusett atriði sem munu aðstoða eigendur fasteigna við að uppræta rakaskemmdir og koma í veg fyrir að nýbyggingar verði útsettar fyrir rakaskemmdum í framtíðinni.

Í fyrsta lagi er lagt fyrir hæstv. ráðherra að leggja fram breytingar á lögum og reglugerðum til að auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda. Hér er samt ekki verið að leggja til breytingar á almennum bótarétti heldur frekar ýmsum atriðum sem snúa að mati á rakaskemmdum og meðferð slíkra mála hjá tryggingafélögunum. Sem dæmi má nefna að engin samræming er milli þeirra aðferða sem notaðar eru hjá þeim sem bjóða upp á mælingar á rakaskemmdum og myglu, hvorki í aðferðafræði né í mati á alvarleika málsins. Úrræðin sem tengjast þessum málaflokki eru mjög dýr og falla oft og tíðum utan trygginga og ekki bara þegar kemur að aðgerðum til að koma í veg fyrir tjón heldur er tjónið oft og tíðum hreinlega ekki bætt. Þar má sérstaklega nefna innbú, en slíkt er ekki hægt að tryggja fyrir mygluskemmdum. Og í mörgum tilfellum, þar sem fólk verður alvarlega veikt, þarf hreinlega að farga öllu innbúi og það er hægara sagt en gert að bæta það tjón fyrir þá sem ekki hafa efni á því.

Í öðru lagi er hæstv. ráðherra falið að efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi. Hingað til hefur Rannsóknastofa byggingariðnaðarins gegnt þessu hlutverki en framtíð hennar er óljós þar sem hún leggst líklega af ef áform hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, verða að veruleika. Það er mikilvægt að sú þekking sem þar er glatist ekki og að starfsemin sé óháð og hafi nægilegt fjármagn.

Rætt hefur verið um að setja verkefni rannsóknastofunnar í samkeppnissjóði en vandséð er að það bæti rannsóknir á byggingarefni að einhverju leyti. Hið opinbera þarf að standa sig í stykkinu þegar kemur að því að tryggja grunnrannsóknir á byggingarefni við íslenskar aðstæður. Það ásamt aukinni fræðslu til fagaðila er ein meginforsenda þess að hægt sé að koma í veg fyrir rakaskemmdir í þeim húsum sem byggð verða á næstu árum og áratugum.

Aukin þekking fagaðila er einmitt þriðji punkturinn í tillögunni, en þar er sérstaklega verið að horfa til aukinnar þekkingar á hættu á rakaskemmdum strax á byggingarstigi. Slíkt er ekki úr lausu lofti gripið. Á undanförnum árum hafa komið upp fjölmörg dæmi um rakaskemmdir og myglu í nýlegum húsum sem rekja má beint til byggingar þeirra og má þar nefna atriði eins og geymslu byggingarefna utan dyra og skort á sérþekkingu við vinnu í votrýmum og við glugga, svo að fátt eitt sé nefnt. Rétt er þó að taka fram að flestir verktakar sem starfa við nýbyggingar hér á landi fylgja þeim reglum og leiðbeiningum sem um nýbyggingar gilda. Hér er verið að hvetja til þess að auka þessi gæði enn frekar.

Í fjórða lagi er lagt til að hæstv. ráðherra geri aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði. Hér er tækifæri til fjölmargra útfærslna en ég hef séð fyrir mér að þetta gæti mögulega litið út svipað og gagnagrunnur Samgöngustofu um bifreiðaskoðanir eða heilsuvera.is. Þetta er stærsta fjárfesting sem við förum í á lífsleiðinni. Hugmyndin er að þarna sé hægt að safna miðlægt upplýsingum um þær framkvæmdir sem hafa sannarlega verið gerðar á húsnæði og gætu haft áhrif á fyrirætlanir væntanlegra kaupenda og leigjenda. Þetta er gríðarlega mikilvægt og í raun svolítið absúrd að þetta sé ekki til staðar, þ.e. hversu litlar upplýsingar við höfum í raun um þessa stóru fjárfestingu. Á einum stað væri t.d. hægt að finna ástandsskoðanir, reikninga vegna viðhalds, myndir fyrir og eftir og tjónasögu — þessar upplýsingar eru nú þegar til í flestum tilvikum en eru ekki aðgengilegar á einum stað. Tryggingafélög landsins luma á miklu magni upplýsinga, svo að dæmi sé tekið, en þær eru ekki aðgengilegar neinum nema eigendum fasteignarinnar. Reyndar væri áhugavert að heyra, og ég geri fyrirvara með það, álit Persónuverndar hvað þennan tölulið varðar og heimildir tryggingafélaga til að afhenda gögn frá sér í slíkan miðlægan gagnagrunn.

Í fimmta lagi er lagt til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir jákvæðum hvötum til að hægt sé að tryggja fasteign með fullnægjandi hætti gegn rakaskemmdum. Reyndar munu öll þau atriði sem ég hef talið hér upp gera það, en engu að síður væri áhugavert að sjá hvort ekki séu sjálfstæðar leiðir til slíks.

Síðasti töluliður tillögunnar felur hæstv. ráðherra að taka upp jákvæða hvata fyrir fasteignaeigendur til að koma í veg fyrir rakaskemmdir á þeim fasteignum sem nú þegar er búið að byggja á Íslandi. Aftur er orðalagið haft frekar opið til að gera hæstv. ráðherra kleift að hugsa dálítið út fyrir boxið. Þó er hægt að ímynda sér ívilnanir af sköttum og gjöldum sem falla til við viðgerðir á húsum, beina fjárhagslega aðstoð við tekjulága og vottunarkerfi fyrir fasteignir þar sem girt hefur verið af fremsta megni fyrir rakaskemmdir sem hefði áhrif á endursöluverð. Þetta skiptir máli vegna þess að tjónið sem er til staðar í samfélaginu, heilsutjón á fólki, kostar alveg gríðarlega mikla peninga. Ef við búum til jákvæða hvata fyrir eigendur fasteigna til að viðhalda fasteignum sínum og koma í veg fyrir rakaskemmdir þá erum við í raun og veru að spara alveg gríðarlega til framtíðar.

Við skulum heldur ekki gleyma því að fjölmargar fasteignir í eigu ríkisins og sveitarfélaga eru illa farnar af rakaskemmdum og myglu. Ein af aðgerðunum til að rétta við efnahag landsins gæti t.d. verið veruleg uppbygging þessara innviða, sem oft eru skólar eða sjúkrahús, til að koma í veg fyrir rakaskemmdir þar.

Forseti. Eftir að ég fór að láta mig þessi mál varða kom fljótt í ljós að vandamálið er miklu stærra en mig hefði nokkurn tímann órað fyrir. Ég hef varla haft undan að kynna mér reynslusögur þeirra sem hafa komið að máli við mig ásamt því að kynna mér starfsumhverfi og lagaumhverfi þeirra sem starfa við rannsóknir og viðgerðir á rakaskemmdum. Áhrifin á mannslíkamann, þar sem myglu er að finna, eru mjög mismunandi en alvarlegar sýkingar í öndunarfærum og áhrif á húð eru líklega algengust. Reyndar bind ég vonir við að þolendur rakaskemmda og myglu, hvort sem það er vegna skemmda eða vegna líkamlegra einkenna, sendi inn umsagnir til velferðarnefndar vegna þessa máls og leyfi nefndarmönnum að kynnast reynsluheimi sínum. Ég tel það vera sérstaklega mikilvægt vegna þess hversu persónubundin áhrifin eru á heilsu fólks og umsagnir eins og þessar gætu orðið mikilvægt veganesti í vinnu hæstv. ráðherra verði tillagan samþykkt enda er skortur á rannsóknum á heilsufarslegum áhrifum þess að búa við og vinna í umhverfi þar sem eru rakaskemmdir og mygla. Auðvitað er mygla mismunandi og hún er ekkert öll hættuleg og hún fer líka mismunandi í fólk.

Ég myndi einnig mælast til þess, og það er mögulega efni í annað þingmál, að fram fari einhvers konar rannsókn á afleiðingum þess að búa í myglu. Nú hef ég upplifað þetta á eigin skinni. Ég get sagt fyrir mitt leyti að viðbrögð fólks, ekki bara gagnvart mér heldur gagnvart því fjölmarga fólki sem ég hef talað við, eru oft á þann veg að um sé að ræða einhvers konar ímyndunarveiki. Það er einhvern veginn eins og fólk sé ekki tilbúið til að kannast við að þetta sé vandamál. Og það er vandamál af því að það er fullt af fólki sem er veikt og það er fullt af fólki á flótta frá heimili sínu. Það er fullt af fólki sem hefur þurft að henda öllu innbúinu sínu, eyða gríðarlega miklu fjármagni í að rífa út myglu og laga heimili sitt. Við erum ekki að viðurkenna þetta vandamál nægilega vel og við höfum ekki hugmynd um umfang vandamálsins þegar kemur að heilsuspillandi áhrifum myglu. Ég hvet til þess að það verði einnig skoðað.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillagan gangi til velferðarnefndar Alþingis.