151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að viðurkenna að ég missti af fyrri hlutanum af þessari umræðu þannig að hugsanlega hefur verið farið yfir eitthvað af því sem ég er að velta fyrir mér. Hvað varðar málið efnislega er í raun bara eitt sem ég átta mig ekki á í sambandi við málið sjálft og það er hvers vegna sérstaklega eru tilgreind meðferðarúrræði sem eru í boði á sjúkrahúsinu Vogi. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því ágæta sjúkrahúsi en mér þykir skrýtið að einblínt sé á það eitt vegna þess að það að eiga við fíknivanda er miklu umfangsmeira vandamál og ég hefði haldið að heppilegra væri, og kannski fer nefnd yfir það, að útvíkka þetta þannig að aðgerðaáætlunin snúist um að bæta aðgengi einstaklinga með fíknivanda að meðferðarúrræðum almennt, óháð því hvort það er á Vogi eða annars staðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hugsanlega eru til einhver góð svör við þessu en ég hef alla vega tekið eftir því í umræðu á Íslandi að það er svolítið gert ráð fyrir því að SÁÁ og Vogur sé eina úrræðið sem er til staðar. Það er í fyrsta lagi ekki rétt. Í öðru lagi eru þær aðferðir sem er beitt þar ekki alveg lausar við að vera gagnrýniverðar. Það er ekki rétt að 12 spora kerfið sé það eina sem virki. Það er ekki þannig. Það er mjög misjafnt hvað fólk þarf. Stundum er fíknivandinn ekki einu sinni rót vandans heldur afleiðing undirliggjandi vanda. Stundum t.d. leiðir vímuefnaneysla, lögleg eða ólögleg, af sér geðræn vandamál en stundum eru það geðrænu vandamálin sem leiða af sér vímuefnaneysluna eða áföll í æsku eða annað. Það er ýmislegt sem getur valdið því að fólk verður fíkninni að bráð.

Ég kom hér upp og ætlaði að halda ræðu aðallega í kjölfar hv. 8. þm. Suðurk., Karls Gauta Hjaltasonar, sem spjallaði aðeins um heróín og þá leiðu staðreynd að það hefur sést hérlendis. Ég er sammála hv. þingmanni um áhyggjurnar af því. Ég hef reyndar ekki séð tölurnar eða gögnin sem hv. þingmaður nefndi í sambandi við það að heróíni fylgi meira af ránum. Mig grunar að það snúist meira um félagslega stöðu neytendanna en efnið sjálft. Það er hins vegar alveg rétt, sem hv. þingmaður sagði, að heróín er ekki notað, að mér vitandi í það minnsta, í lögmætum tilgangi, vissulega ekki á Íslandi. Það þýðir að ekki er vitað hversu stórir skammtarnir eru. Þetta er ólíkt því sem gerist þegar kemur að því sem er kallað læknadóp, þ.e. efni sem eru notuð í læknisfræðilegum tilgangi, sleppa út í hagkerfið og eru síðan notuð þar. Þau efni eru líka drýgð með ýmsum hætti af þeim sem þau selja, þannig að í því tilviki er ekki alveg ljóst hversu mikið af raunverulega efninu neytandi fær. Vafalaust er hins vegar vandinn aðeins skárri en þegar kemur heróíninu vegna þess að það er alla vega vitað á einhverjum tímapunkti í framleiðsluferlinu og söluferlinu hversu mikið efnið var í hversu miklu magni.

Ég get ekki annað en bent á að tilkoma heróíns á Íslandi var fyrirséð. Hún á ekki að koma okkur á óvart í dag, því miður. Sú saga hefur gengið, sennilega áratugum saman núna, að ástæðan fyrir því að heróín finnist varla á Íslandi hafi verið sú að hinir svokölluðu undirheimar vildu það ekki sjálfir. Ég læt það í friði að fara út í fræðilega skilgreiningu á hugtakinu undirheimar. En þetta er eitt sem er líklega að breytast. Í öðru lagi voru þetta áhyggjurnar þegar komið var á samræmdu kerfi til að fylgjast með úthlutun ópíumskyldra efna, aðgerð sem að mér vitandi enginn var á móti og þjónaði því jákvæða markmiði að hafa betra utanumhald þannig að fólk væri ekki að fá efnin sín hjá mörgum læknum og selja þau síðan á svarta markaðnum. Göfugt markmið og allt í góðu með það, en það var fyrirséð að sá hópur sem er þegar ánetjaður slíkum efnum myndi ekki einfaldlega hætta, hann myndi vaða eld og brennistein, hann myndi ganga lengra, hann myndi sækja í önnur efni sem svöluðu sömu fíkn. Það var sagt þá og bent á það. Ég nefndi það í pontu og þá var hv. þingmaður stjórnarliða sem hristi höfuðið yfir því.

Mér leiðist venjulega að benda á að spádómar mínir hafi ræst en svo er í þessu tilfelli, því miður. Það minnir okkur á að þegar við erum að berjast við fyrirbæri eins og fíkn þá þýðir ekki að beita þeirri einföldu hugmyndafræði að málið snúist einfaldlega um að draga úr framboði og draga úr eftirspurn. Málið er flóknara en svo. Það er ekki hægt að refsa fíklum í þeim tilgangi að fá þá til að hætta. Ef það virkaði að refsa fólki með vímuefnavanda þá væri vímuefnavandinn ekki til. Fíkn er það eitt að fólk notar efnin þrátt fyrir augljósar neikvæðar afleiðingar. Fjölskyldur tvístrast og líf fer í rúst, fólk missir vinnuna, dettur úr skóla, missir vini, börnin sín jafnvel, allt sem því þykir vænst um í lífinu, og notar samt efnið. Hvaðan kemur sú hugmynd að með því að sekta fólk eða setja það á sakaskrá eða refsa því, þá allt í einu hætti það að nota efnið? Þarna liggur misskilningur kerfisins, virðulegi forseti, á fyrirbærinu fíkn. Það er litið á fíkn sem óþekkt eða óhlýðni. Hún er meira og flóknara fyrirbæri en það.

Hvað varðar framboðið hef ég sömuleiðis nefnt það áður í pontu og segi það aftur: Hvað ef maður hefði sagt árið 2006 eða 2007 að hægt væri að þurrka út allan innflutning á hassi á Íslandi? Ég hugsa að flestir hefðu gert ráð fyrir því að þá myndi kannabisneysla minnka á Íslandi. Þetta er það sem gerðist í hruninu. Vegna gjaldeyrishafta, fjármagnshafta, var ekki hægt að viðhalda þeirri hringrás fjármagns sem þarf til að viðhalda hassinnflutningi í þeim mæli sem þá var. Og hvað gerðist? Íslendingar byrjuðu að rækta sitt eigið gras. Það varð ekkert erfiðara að fá kannabis, það var bara gras, íslenskt gras í staðinn fyrir hass fengið að utan.

Virðulegi forseti. Fíkn og vímuefnaneysla eru heilbrigðisvandamál sem á að taka á á þeim forsendum, ekki með því að reyna að stjórna fólki heldur með því að koma til móts við þarfir þess, hvort sem þær eru félagslegar, sálfræðilegar eða læknisfræðilegar.

Mér fannst vert að koma hingað og nefna þetta vegna þess að ég hlýddi á þorrann af ræðu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar. Að því sögðu hef ég það eitt að athuga efnislega við tillöguna, mér sýndi ég reyndar sjá hv. þingmann ætla í andsvar við mig eða ræðu til að útskýra þann þátt, hvers vegna einblínt er á Vog sérstaklega. Ég finn ekki skýringar á því í greinargerð en aftur, það er með þeim fyrirvara að ég hef ekki hlýtt á alla umræðuna. Að öðru leyti fagna ég vissulega markmiði tillögunnar. Mér þykir markmið tillögunnar gott, að bæta aðgengi einstaklinga í fíknivanda að meðferðarúrræðum. En ég vara eindregið við því að þessi vandamál séu hugsuð þannig að þau séu einföld. Ef þau væru einföld væri búið að leysa þau. Þau eru ekki einföld og þess vegna erum við ekki búin að leysa þau. Við munum aldrei sjá vímulaust Ísland. Aldrei. Þannig er það. Þá er bara spurning hvernig við lifum með þeim veruleika með sem minnstum skaða, ekki síst fyrir neytendurna sjálfa.