151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýringarnar. Sú skýring að Vogur sé með sérhæfða afneitunaraðstöðu gerir það að verkum að kannski er alveg eðlilegt að líta sérstaklega til þess ágæta sjúkrahúss. Hins vegar myndi ég segja að þingsályktunartillagan þurfi ekki að miða sérstaklega við það ágæta sjúkrahúss eitt og sér því að ein af lausnunum á vandamálinu sem ætlunin er að bregðast við gæti verið að fjölga slíkum úrræði annars staðar en á Vogi. Ég læt hv. velferðarnefnd eftir að koma til móts við þetta. Hugsanlega er þetta ekki flóknara en að taka út þessi tvö, þrjú orð, eða hvað það er, í efnistextann sjálfum. Ég hugsa að vandinn yrði þá leystur, ef einhver vandi er. Ekki það að ég ætli að segja hv. velferðarnefnd fyrir verkum.

Hv. þingmaður nefndi hins vegar AA-samtökin sérstaklega, þ.e. hvað gerist þegar einhver með vímuefnavanda kemur út af sjúkrahúsi eftir afeitrun. Mér heyrðist á orðalagi hv. þingmanns það viðhorf vera til staðar að AA-samtökin, eða 12 spora kerfið sem fylgir þeim, sé einhvern veginn það sem alkóhólistar þurfi á að halda. Þetta er umdeilt. Það er fullt af fólki sem notar aðrar leiðir en 12 spora kerfið og vill ekki nota 12 spora kerfið vegna hugmyndafræðilegs eða jafnvel trúarlegs ágreinings. Það er frábært að kerfið henti því fólki sem það hentar en það er ekki sjálfsagt að alkóhólisti þurfi þetta kerfi. Enn síður er það sjálfsagt að manneskja sé ekki alkóhólisti hafi hún ekki þörf fyrir þetta úrræði. Manneskja getur haft þörf fyrir annað úrræði en 12 spora kerfið en samt verið alkóhólisti.

En að því sögðu tek ég skýringu þingmannsins góða og gilda. Þetta er eitthvað sem ég myndi bara skilja eftir fyrir velferðarnefnd að kljást við. Fyrir mitt leyti hef ég ekki mikla ástæðu til að rökræða þetta frekar nema auðvitað ef hv. þingmaður vill það. Í því tilfelli tek glaður þátt í því.