151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er þetta útrætt okkar á milli, þannig lagað séð. En af því að þingmaðurinn kom inn á að til væru fleiri úrræði fyrir alkóhólista en 12 spora kerfið þá getur það vel verið. Ég ætla ekkert að þræta fyrir það. En 12 spora kerfið hefur verið mjög árangursríkt síðan 1935 og hjálpað milljónum manna til að komast til betra lífs. Það eru sjálfsagt til fleiri aðferðir og ég bara óska þeim til hamingju sem finna þá aðra leið en þessa út úr fíkninni. Ég ætla ekki að fullyrða en það er bara á hreinu í mínum huga að sá sem hefur átt í vanda með fíkn, með áfengi eða fíkniefni almennt, sér að líf hans er að komast í óefni, tekur þá ákvörðun að hann verði að gera eitthvað í málinu, hann ætli bara að hætta á morgun og honum tekst það, hann ekki veikur fíkill eða veikur alkóhólisti í mínum huga. Þetta tekst bara ekki hjá hinum sem eru sjúkir. Ég get upplýst hv. þingmann um það að ég er einn af þeim sem gerðu margar tilraunir í mörg ár til hætta í neyslu. Það skeði ekkert fyrr en ég komst í meðferð fyrir 26 árum og ég sneri lífi mínu algjörlega við. Ég hefði örugglega aldrei komist upp í ræðupúlt Alþingis ef ég væri virkur alkóhólisti. Það er alveg á kristaltæru, svo að það sé sagt. En ég þakka þingmanninum kærlega fyrir viðbrögð hans.