151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

stimpilgjald.

55. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013, um kaup einstaklings á íbúðarhúsnæði. Flutningsmenn frumvarpsins eru Vilhjálmur Árnason, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson.

Frumvarpið hefur verið flutt nokkrum sinnum áður og ber að geta þess að hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi þingmaður, flutti málið upphaflega og endurflytjum við það núna.

Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup.

Markmið frumvarpsins eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði.

Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.

Þetta hefur ekkert breyst þó að frumvarpið hafi verið flutt nokkrum sinnum. Ég vil nefna að það er gríðarlega mikið frelsismál að það nái fram að ganga, frelsi fyrir fjölskyldurnar í landinu. Við höfum séð að það að afnema stimpilgjöld af lánsskjölum, sem var gert árið 2013, minnir mig, eða 2014, hafði gríðarleg áhrif á lánamarkaðinn á húsnæðismarkaði. Nú er fólk að endurfjármagna og vextir hafa verið að lækka og fólk getur verið að breyta úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð. Þetta hefur skapað mikinn lánamarkað sem hefur bara verið til góðs fyrir neytendur og húsnæðiseigendur. Það má ætla að áhrifin verði ekkert minni af þessu frumvarpi.

Það er talið vera stór hluti af velferðarsamfélaginu að það sé góður og hagkvæmur húsnæðismarkaður, enda eru húsnæðismál ein af stóru málunum sem eru rædd við hverja kjarasamningsgerðina á fætur annarri. Við sáum það við gerð lífskjarasamningana hvað húsnæðismál voru stór þáttur. Húsnæðismálin voru þar í forgrunni og byggt á séreignarstefnunni enda sýna allar kannanir að fólk vill búa í sínu eigin húsnæði. Það eru örfáir sem vilja vera á leigumarkaði. Leigumarkaðurinn á Íslandi á líka langt í land með að verða þróaður, hann er nú mest keyrður áfram af því að einstaklingar leigja sitt húsnæði. Hann þarf að breytast mikið. Hér er kjörin leið til gera húsnæðismarkaðinn enn opnari og virkari með eðlilegri verðmyndun og öðru slíku.

Eins og staðan er núna er mjög kostnaðarsamt að skipta um húsnæði. Þegar ungt fólk er að kaupa sitt fyrsta húsnæði þarf það oft að fjárfesta um efni fram til þess að fjárfesta fram í tímann. Ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er kannski ekki komið með maka eða það er komið með maka en ekki börn og það þarf þá fjárfesta nokkur ár fram í tímann þegar það verður komið með maka og eitt, tvö, þrjú börn. Það þarf að hugsa málin fram í tímann af því að það er svo kostnaðarsamt og flókið að skipta um húsnæði. Framboðið er ekki það mikið heldur. Það er margt sem spilar inn í. Með afnámi stimpilgjalda er verið að auðvelda þessu fólki að skipta um húsnæði. Ef fjölskyldumynstrið breytist er orðið auðveldara að fara úr litlu húsnæði í stærra sem hentar betur. Og þá er kannski meira af stærra húsnæði í boði af því að fyrir þá sem eldri eru, sem eru búnir að nýta sitt stóra húsnæði fyrir sína fjölskyldu og vilja minnka við sig aftur, er líka orðið ódýrara að skipta um húsnæði, fyrir eldri borgarana sem við vorum einmitt með til umræðu í málinu á undan. Þetta er líka mikill kostnaður fyrir þá. Það er svo víða sem þessi kostnaður hefur mjög hamlandi áhrif.

En talandi um ungu fjölskylduna sem þarf oft stærra húsnæði þegar hún er að stækka. Ef ekki er um að ræða fyrstu íbúð fær hún ekki afslátt af stimpilgjöldunum eins og er í dag og það er að vísu bara helmingsafsláttur. Þegar fjölskyldan stækkar og hún er ekki í nógu stóru húsnæði og þarf að stækka við sig er það kostnaður sem leggst ofan á það að vera á skertum launum í flestum tilfellum í fæðingarorlofinu. Það kostar alltaf sitt að breyta um húsnæði, það kostar sölulaun og að koma sér fyrir og ýmsa grunnvinnu. Það að þurfa að borga há stimpilgjöld líka riðlar oft forsendum fyrir kaupunum.

Þegar við horfum á þetta svolítið heildstætt, þá er það mikið velferðarmál að afnema stimpilgjöldin. Þetta ýtir undir séreignarstefnuna sem flestir vilja. Þetta eykur frelsi innan fjölskyldna til að aðlaga húsnæði að fjölskyldustærð og gerir þeim það miklu betur kleift, það myndi ýta undir framboðið og virkari húsnæðismarkað sem myndi vonandi draga úr húsnæðiskostnaði heimilanna.

Ég er búinn að ræða svolítið mikið um það hvað húsnæðismálin koma oft við sögu í kjarasamningum og við fáum fullt af frumvörpum hér í þinginu aftur og aftur um almennar íbúðir, hlutdeildarlán og það koma lög um leigumarkað. Við erum alltaf að reyna að hafa áhrif á húsnæðismarkaðinn. En við sjáum það, eins og ég nefndi áðan með lánin, að til að láta markaðinn virka og vera virkan, hafa hann einfaldan þá er svona almenn aðgerð eins og þessi, til að draga úr kostnaðinum við það að skipta um húsnæði og annað slíkt, besta úrræðið. Þetta er ekki sértækt úrræði heldur er þetta almennt úrræði sem gildir um alla og þróar hinn ódýrari markað, að öllum líkindum, eins og við höfum séð að gerðist með lánin, og virkari þannig að framboðið eykst og það verður auðveldara að hreyfa sig innan hans. Þá erum við að ná svo mörgum af sömu markmiðum og við erum að reyna að ná með þessum sérstöku úrræðum, sem koma hingað fyrir þingið aftur og aftur, og kosta gríðarlegar fjárhæðir.

Samkvæmt útreikningum í fjármálaráðuneytinu kostar það allt að 5 milljarða að afnema þetta gjald, það eru tekjurnar af þessu gjaldi í dag, sem er ekkert annað en skattur. En ef húsnæðismarkaðurinn er virkur og þar eru viðskipti þá sé ég ekki að þetta kosti ríkissjóð 5 milljarða. Þetta er ekkert annað en enn einn skatturinn á íbúðarhúsnæði. Það á að afnema þetta og ég held að þegar að heimilin standa sterkar og húsnæðismarkaðnum verður virkari, þá verði meiri viðskipti og velta í gegnum fasteignasölurnar og framkvæmdirnar og annað. Þegar upp er staðið verður þetta nokkuð þjóðhagslega hagkvæmt, alveg augljóslega. Þetta mun leysa mjög mörg vandamál á húsnæðismarkaði, sem við erum oft að glíma við hér, með almennri aðgerð og dæmin sýna það.

Ég legg til að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar og vonast til þess að þar fái það góða og mikla umfjöllun og að við látum nú verða af því núna að klára þetta mál fyrir þinginu öllum til hagsbóta. Þetta kemur öllum við af því að það er stór meiri hluti sem vill eiga sitt eigið húsnæði. Við viljum stækka þann hóp. Því er þetta mjög almennt mál sem aðstoðar marga og við ættum að sameinast um það.