151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna og fyrir að flytja þetta frumvarp. Ég er einn af meðflutningsmönnum, eða ætti kannski að segja meðflutningskonum, því að mér sýnist að að þessu sinni séu það bara konur sem flytja þetta frumvarp. En ég held að þetta frumvarp eigi erindi við okkur öll, þetta er ekkert kvennamál. Ég held að þetta sé í raun beinhart efnahagsmál.

Í fyrsta lagi erum við með lög um kynjajafnrétti eða hlutfall kynja í stjórnum. Við ræðum mikið þessa dagana um lög og viðurlög, tilmæli og reglugerðir og ég hef tekið eftir því að fjölmiðlamenn spyrja gjarnan nú á Covid-tímum, þegar alls konar tilmæli koma út og jafnvel reglugerðir, hvernig þeim verði fylgt eftir og hvort það séu sektarákvæði. Fólk virðist mjög upptekið af því að lögreglumenn eigi að framfylgja bæði tilmælum og reglugerðum sem að þessu lúta og helst að sekta. En ég hef ekki heyrt mikið fara fyrir umræðunni um af hverju sektum sé ekki beitt þegar brotin eru lög um hlutfall kynja í stjórnum.

Við höfum dæmi um að eitthvað sé í lögum án þess að það séu sektarheimildir. En við höfum líka skýr dæmi um að þegar slíkt hefur verið sett inn þá hefur tekist betur að framfylgja lögunum. Ársreikningaskrá, eða það að skila inn ársreikningum til ársreikningaskrár, er kannski eitt besta dæmið um það. Þar voru heimtur ekki nógu góðar þar til brugðið var á það ráð að setja inn sektarheimildir. Þá bötnuðu skilin til ársreikningaskrár til allra muna. Þetta er því ekkert flókið. Það er rosalega auðvelt að standa hér og segja bara: Heyrðu, við höfum lög. Það kemur í ljós að fólk framfylgir ekki þessum lögum. Hvað gerum við þá? Er ekki eðlilegt að láta Skattinn eða ársreikningaskrá framfylgja lögunum? Þau telja sig þurfa sektarákvæði til að geta framfylgt lögunum. Þannig er hægt að segja að málið sé mjög einfalt og í rauninni er furðulegt að við séum ekki búin að samþykkja það.

Hitt er svo að taka umræðuna um hvort það eigi að vera lög og umræðu um jafnréttismál. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert skemmtilegt að standa í ræðustól Alþingis og ræða jafnréttismál út frá einhverjum kynjakvótum, bara alls ekki. Mér finnst það í rauninni alveg hundleiðinlegt. En engu að síður er staðan sú, því miður, að við þurfum á því að halda. Ég er orðin óþreyjufull og þreytt á því að bíða og það gengur ekki bara að halla sér aftur og bíða þess sem verða vill, bíða þess að þetta lagist allt saman. Tölurnar sýna okkur að það gerist ekki. Sagan sýnir okkur svo sannarlega að við erum því miður ekki búin að ná þessu fram og þá þarf að bregðast við með einhverjum hætti.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að muna þegar við förum í þessa umræðu, að jafnréttismál eru í rauninni orðin útflutningsvara á Íslandi. Við erum í fyrsta sæti í jafnréttismálum og höfum verið það síðustu 11 ár, ef ég man rétt. Við erum með sérstaka sendiherra jafnréttismála. Þegar erlendir stjórnmálamenn koma hingað og ræða við okkur eða ræða við utanríkisráðherra þá eru jafnréttismál mjög gjarnan rædd og við spurð að því hvernig við höfum náð þeim árangri sem við höfum þó náð. En ég held að við þurfum að passa okkur á því að halda þeirri stöðu okkar, því að hún skiptir okkur máli. Í grunninn eru auðvitað jafnréttismál beinhörð efnahagsmál, því að auðvitað eigum við að nýta krafta beggja kynja. Það er í rauninni fásinna að við séum á einhvern hátt, hvort sem það er menningarlega eða með lögum eða öðru, að útiloka annað kynið frá því að nýta tækifæri sín. Þess vegna hef ég sagt: Ég styð jöfn tækifæri.

Lög um jafnt hlutfall kynja í stjórnum voru samþykkt árið 2010, að mig minnir, með gildistöku árið 2013. Það voru ekki allir sammála því að fara þá leið á sínum tíma og ég skil það. Ég skil alveg það sjónarmið að þarna séum við að ganga inn í félög og að fólk eigi að ráða því sjálft hvernig stjórnir fyrirtækja þess eru. Það er alveg hægt að setja sig í þau spor og skilja það sjónarmið. Engu að síður voru þessi lög samþykkt á þingi og að því er ég best veit hefur enginn lagt fram frumvarp um að afnema þau lög. Þá er staðan einfaldlega sú að við erum með þessi lög. Við sjáum að þeim er ekki framfylgt og þá þurfum við í þessum sal að bregðast við með einhverjum hætti. Hér er tillaga um að hægt verði að beita sektarákvæðum. Það kann vel að vera að þetta þurfi að laga til í nefnd og fara betur yfir hvort útfærslan sé rétt eða ekki. Ég treysti hv. atvinnuveganefnd vel til að gera það. En þetta er nokkuð sem reynst hefur vel, að vera með einhvers konar viðurlög til að tryggja að lögum sé fylgt í landinu, og það styð ég að sjálfsögðu.