151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

málefni öryrkja.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði með skætingi og ég kalla það ekkert annað en hótun það sem hann sagði. Það eru mér ákveðin vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra geti ekki tekið dýpra í árinni um þá kröfu okkar að laun öryrkja og ellilífeyrisþega fái að fylgja almennri launaþróun í landinu og tekið sé mið af lífskjarasamningum, líkt og gert var þegar hún sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um árið. Hér hafa fjölmargar aðgerðir leitt til framfara. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ég hef stutt þær margar og mun gera það áfram, öll góð mál. Ég kalla hins vegar eftir því hvort ekki sé eðlilegt að með almennum hætti sé tryggt að lífeyrir fylgi launaþróun samkvæmt lífskjarasamningunum. Annars er tómt mál fyrir ríkisstjórnina að vera að slá um sig með orðum eins og lífskjarasamningur þegar hann nær bara til hluta samfélagsins.