151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það lítur út fyrir að rekstrarafkoma sveitarfélaga verði hátt í 40 millj. kr. lakari nú eftir tilkomu Covid en áður var. Þetta er samkvæmt skýrslu starfshóps um fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna. Þetta mun auðvitað hafa fyrirsjáanleg áhrif til langrar framtíðar á rekstur þeirra og afkomu. Ríkisstjórnin er nýlega búin að kynna viðbótarstuðning við sveitarfélögin að fjárhæð 2,8 milljarðar og er þá heildarstuðningur ríkisins við sveitarfélögin áætlaður 4,8 milljarðar, ef ég tek tölur upp úr kynningu á þessari skýrslu. Gerum frekar meira en minna, var viðkvæðið í vor hjá öllum, hjá ríkisstjórninni, hjá stjórnarandstöðunni, gerum frekar meira en minna. Er þetta að gera meira? Hversu lítið væri þá minna, herra forseti? Þeir tala um sviðsmyndir, breyttar sviðsmyndir, ólíkar sviðsmyndir, greiningar, frekari greiningar, starfshópa, endurskipan starfshópa, að fela starfshópnum fleiri og frekari verkefni.

Ljóst er að staða sveitarfélaganna er mjög misjöfn, sum þeirra hafa næsta lítið fundið fyrir samdrætti vegna veirufaraldursins meðan önnur eiga erfitt um vik. Það getur átt sér fleiri skýringar, t.d. skuldastöðu í einstökum sveitarfélögum, til að mynda í Reykjavík, þar sem menn geta ekki einu sinni lengur staðið undir lögbundnum verkefnum sínum. Langverst er þó atvinnuástandið í Mýrdal og Skaftárhreppi og einnig er atvinnuleysi gífurlegt á Suðurnesjum.

Hvað hyggjast stjórnvöld gera hvað þessi sveitarfélög varðar? Ætla þau að láta tækifærið sér úr greipum renna (Forseti hringir.) eins og var þegar við horfðum á viðbrögð ríkisstjórnar við fyrirætlunum Atlantshafsbandalagsins við uppbyggingu í Helguvík? Ætla stjórnvöld að láta sér tækifærið úr greipum renna eins og gerðist þar? (Forseti hringir.) Þar rann úr greipum okkar tækifæri til að sporna verulega gegn atvinnuleysi þar sem það er mest, (Forseti hringir.) á Suðurnesjum. Það var afþakkað vegna pólitísks þvergirðingsháttar.