151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa umræðu og líka ástæða til að taka undir það sem komið hefur fram hjá mörgum ræðumönnum í dag, að það er mjög mikilvægt við þessar erfiðu aðstæður sem nú eru að samtal og samvinna sé á milli ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að mæta þeirri efnahagskreppu sem við glímum nú við. Kreppan, sem stefnir í að verða einhver sú dýpsta sem við höfum upplifað á síðustu 100 árum, mun hafa áhrif hjá sveitarfélögunum eins og öðrum og ekki er hægt að reikna með að ríkið geti bara tekið risalán, eins og stundum heyrist í umræðunni, og dreift síðan þeim fjármunum til sveitarfélaganna til að bæta þeim að fullu það tap sem þau verða fyrir vegna aðstæðnanna. Það er ekki alveg svo einfalt að hægt sé að ganga þannig frá málum.

Hins vegar er alveg rétt, sem komið hefur fram hér, að sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau halda uppi mikilvægri starfsemi sem þarf að sjálfsögðu að standa vörð um. Leita þarf leiða í sameiningu til að finna lausnir á þessu. Það er hins vegar athyglisvert, sem einnig hefur komið fram í þessari umræðu, að þegar á heildina er litið eru margir af tekjustofnum sveitarfélaganna ekki farnir að gefa eftir enn þá, eða hafa alla vega á þessu ári gefið minna eftir en menn áttu kannski von á. Stærsti tekjuliður sveitarfélaganna er auðvitað útsvar og fasteignagjöld og hvort tveggja hefur farið upp, eiginlega gagnstætt því sem við áttum von á. Staða sveitarfélaganna er hins vegar afar misjöfn að þessu leyti, bæði hvað varðar tekjur og útgjöld, og þarf að taka tillit til þess í þessari samvinnu ríkis og sveitarfélaga.