151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn. .

219. mál
[18:36]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2020 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/843, um breytingu á tilskipun 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB, verði felld inn í samninginn.

Tilskipunin sem felld er inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 63/2020 er oft nefnt fimmta peningaþvættistilskipun ESB. Með henni eru gerðar breytingar á tilskipun ESB 2015/849, fjórðu peningaþvættistilskipuninni. Gerðinni er m.a. ætlað að bregðast við breytingum á aðferðum hryðjuverkamanna við að fjármagna aðgerðir sínar. Einnig er gerðinni ætlað að auka á aðgerðir til að sporna við skattsvikum, bregðast við nýlegum tæknibreytingum í fjármálakerfinu og auka gagnsæi. Markmiðið er að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

Vald þeirra stofnana sem fara með eftirlit með peningaþvætti í hverju ríki er eflt og samstarf þeirra auðveldað. Stofnanirnar munu þannig geta fengið aðgang að meiri upplýsingum en áður auk þess að hafa aðgang að miðlægum gagnabönkum og upplýsingum úr skrám. Frekari takmarkanir eru settar við nafnlausri notkun fyrirframgreiddra korta og verður eingöngu hægt að nota fyrirframgreidd kort frá löndum utan EES-svæðisins í samræmi við reglur ESB. Þá er aukið eftirlit með rafeyri og stöðum þar sem hægt er að skipta rafeyri yfir í venjulegt fé þar sem sýnt hefur verið fram á að hægt sé að komast fram hjá venjulegu eftirliti við slík skipti. Samkvæmt 32. gr. a ber aðildarríkjum EES skylda til að setja upp miðlæga skrá eða miðlægt kerfi þar sem bær stjórnvöld geta beint og milliliðalaust aflað upplýsinga um hverjir séu eigendur bankareikninga, greiðslureikninga og geymsluhólfa. Samræmdar eru athuganir á ríkjum og viðskiptavinum frá löndum sem eru á lista yfir ríki þar sem veikleikar eru í eftirliti með peningaþvætti og eftirliti með hryðjuverkum. Meðal annars verður sett upp skrá yfir ríki þar sem slík áhætta er talin vera. Þá fær almenningur fullan aðgang að tilteknum atriðum í skrá yfir þá sem teljast raunverulegir eigendur fyrirtækja og sjóða.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.