151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér vitanlega hefur þingflokkur Miðflokksins ekki óskað eftir umræðu um sóttvarnir þessa níu mánuði sem Covid-19 hefur herjað á Íslandi. En ég fagna því að nú getum við átt skoðanaskipti um þau mál og ég vil líka beina spurningu til hv. þingmanns um það hvort þingmaðurinn leggi til aðra nálgun en þá sem við höfum viðhaft hér, þ.e. að byggja á bestu mögulegu þekkingu í sóttvarnamálum og þekkingu á eðli faraldurs af þessu tagi. Ég hef ekki heyrt slíkar tillögur. Ég hef ekki heyrt slíkar hugmyndir, að lagt sé til að fara ekki að ráði sóttvarnalæknis, að fara ekki að ráði okkar besta fólks en það er alveg klárt að ábyrgð á sóttvarnaráðstöfunum liggur, samkvæmt íslenskri stjórnskipan, hjá heilbrigðisráðherra. Þannig er það og það er enginn vilji til þess að breyta því.

En hv. þingmaður spyr sérstaklega um áhrif af frestun aðgerða. Það liggur auðvitað fyrir núna að við erum að fresta aðgerðum að ósk landlæknis vegna álags á heilbrigðiskerfið. Landlæknir leggur til þessa frestun til tveggja vikna og það er öllum ljóst að það hefur áhrif á bið og biðtíma og við vonum að við getum dregið þetta aðgerðastopp til baka að þeim tíma liðnum. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um áhrif aðgerðanna á geðheilsu þjóðarinnar, hvort eitthvað sé verið að gera í því. Við erum að kanna geðheilsu þjóðarinnar með sérstöku vísindaverkefni sem heitir Líðan þjóðar á tímum Covid-19 þar sem vísindamenn Háskóla Íslands eru í samstarfi við embætti landlæknis og sóttvarnalækni að reyna að afla sér sem mestrar þekkingar á áhrifum faraldursins og sóttvarnaaðgerða á líðan og lífsgæði landsmanna. Vonandi fáum við að sjá niðurstöður þeirrar rannsóknar hið fyrsta.