151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður spyr fyrst um lagasetninguna, þ.e. markmiðið með lagasetningunni, þegar við erum að endurskoða hluta sóttvarnalaga, þá snýst það um það að við viljum skýra heimildirnar enn betur þó svo að við teljum, og séum sammála Páli Hreinssyni um það sem kemur fram í úttekt hans, að lagastoðin sé algerlega óumdeild, hún sé fyrir hendi. Þessi gildandi lög og reglur hafa reynst vel. En það er rétt að skerpa á og skýra löggjöfina vegna þess að það er fjölmargt í löggjöfinni á sínum tíma sem gerði ekki ráð fyrir faraldri af þeirri stærðargráðu sem við erum að glíma við núna. Þessi reynsla sem hefur skapast nú á árinu 2020 er mikilvæg en líka glíma okkar við aðra smitsjúkdóma eins og nóróveiruna og mislinga o.s.frv., þannig að það er ýmislegt sem má skerpa á í lögunum. Mögulega þarf að skerpa líka betur á því að skýrt sé kveðið á um meðalhóf og jöfnuð og skuldbindingar gagnvart EES-samningnum o.s.frv. þó að það sé auðvitað fyrirliggjandi að það færi betur á því að það lægi fyrir í löggjöf af þessu tagi. Ég hef þegar skipað starfshóp sem er með aðkomu heilbrigðisráðuneytisins og landlæknis, dómsmálaráðuneytis, sóttvarnalæknis, Landspítala, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra til að meta þessa stöðu.

Hv. þingmaður spyr um samstarf við Norðurlöndin. Já, það er mjög mikið samstarf á öllum sviðum, á öllum stigum, getur maður sagt, bæði sóttvarnalæknis við sína kollega á Norðurlöndunum og ráðherra við sína kollega o.s.frv. Fámennið, af því að hv. þingmaður spyr hvort það sé okkur til góðs, felur auðvitað í sér stuttar boðleiðir. (Forseti hringir.) Það felur í sér að samfélagið hreyfir sig hraðar en stór samfélög, þannig að það eru ýmsir kostir við það. En það skiptir líka máli að við erum upplýst samfélag sem erum vön að taka umræðuna opið.