151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Upplýst umræða er grundvöllur fyrir farsælum sóttvörnum en líka fyrir góðri réttindavernd á tímum veirunnar. Faraldursþreytan er komin og hún mun versna. Þetta er þekkt í faraldursfræðum. Gagnrýnin umræða um sóttvarnaaðgerðir mun því aukast, eins og ráðherra kom inn á í inngangsræðu sinni. En gagnrýni er góð og hún verður gagnleg þegar hún er vel upplýst, byggir á upplýsingum og henni er svarað af skilningi. Þríeykið hefur lýst yfir nauðsyn slíkrar umræðu sem grundvelli þeirrar samstöðu sem sóttvarnir þurfa og þau nefna það m.a. í grein sinni „Vogarskálar veirunnar og lýðheilsa“ sem birtist í Fréttablaðinu 15. október, fyrir þremur vikum. Þar segja þau, með leyfi forseta:

„Í ákalli um samstöðu felst þó ekki krafa um gagnrýnislausa umræðu, þvert á móti er mikilvægt að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar um er að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum. Bannfæring gagnrýnisradda er aðeins til þess fallin að sundra þeirri dýrmætu einingu sem við þörfnumst á þessum einstæðu og erfiðu tímum. Það er okkar bjargfasta skoðun að yfirvegun og samstaða er besta sóttvörnin.“

Á vogarskálunum er líf, lýðheilsa, lífsviðurværi og önnur réttindi svo að það er mikilvægt að umræðan sé gagnleg. Þetta er svo stuttur tími sem við höfum en mig langar bara segja að fólk er skiljanlega orðið þreytt, svo verður það reitt og það vill að því sé sýndur skilningur. Ég talaði við sálfræðing sem sagði: Virk hlustun, maður á að hlusta á fólk og sýna því að maður sé að hlusta. Það á að sýna því skilning og svara af skilningi. Það er það sem við þurfum að gera hérna í þinginu gagnvart ráðherra — ég geri ráð fyrir að ráðherra sé orðinn þreyttur líka — sóttvarnayfirvöldum og öllum landsmönnum, líka þeim sem spyrja spurninga sem sumum finnst ruglaðar og klikkaðar.

Ég get sagt að ég fylgi öllum sóttvarnafyrirmælum (Forseti hringir.) en ég veit ekki alveg með grímurnar, ég veit að ef þær eru notaðar rétt þá skila þær árangri en ekki ef maður er með þær undir nefinu, (Forseti hringir.) eins og forseti á forsetastóli gerir stundum. Það þarf að koma því skýrar til skila. Er ráðherra ekki sammála þessu? Getum við ekki staðið saman um það?