151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég treysti því að sóttvarnayfirvöld geri sitt besta miðað við mismunandi kringumstæður og miðað við mjög takmarkaðar upplýsingar og að þurfa að taka margar ákvarðanir mjög hratt í miklu óvissuástandi. Þá er bara óhjákvæmilegt að mistökin séu gerð. Það er ekkert annað í stöðunni þannig séð. Þess vegna er þessi virka hlustun mikilvæg. Við þurfum að hlusta á alla gagnrýni. Ég er sammála um að það þarf að mæta henni en það þarf að hlusta á hana, þau okkar sem hafa kannski þolinmæði og skilning á mikilvægi þess að nálgast fólk sem er reitt og fúlt o.s.frv. af skilningi og reyna að komast að því sem er þar á bak við. Það er það sem sálfræðingur sagði mér. Þegar fólk er reitt þá er það sárt. Það eru margir sárir og á alls konar forsendum. Hárgreiðslufólk hefur sagt: Hvers vegna megum við ekki starfa, en síðan mega aðrir það? Hvers vegna mega barir það, en ekki aðrir? Þetta hefur ekki komist nógu skýrt til skila. Eru jafnvel möguleikar á því að hárgreiðslustofur gætu sinnt sínu ef þær væru með fullan hlífðarbúnað? Ég veit það ekki. Það er eitt sjónarmið. Öll þessi sjónarmið verða að koma fram.

Til að ég geti sinnt mínum skyldum sem þingmaður með eftirlitshlutverkið, (Forseti hringir.) þá þarf ég að sjá mælaborðið sem sóttvarnayfirvöld hafa (Forseti hringir.) og ég óska innilega eftir því að eiga (Forseti hringir.) samstarf við heilbrigðisráðherra og sóttvarnayfirvöld um að fá það skýrt fram. Þá get ég útskýrt það fyrir öðrum og sinnt mínu hlutverki.