151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

lög um þungunarrof í Póllandi.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stjórnlagadómstóll Póllands komst að þeirri niðurstöðu fyrir skemmstu að þungunarrof vegna fósturgalla stangist á við stjórnarskrá landsins, reyndar eftir að flokksmenn Laga og réttlætis höfðu rýnt dóminn að mestu og komið að sínum mönnum. Þungunarrofslög í Póllandi eru ströngust í Evrópu, einnig fyrir þennan umdeilda dóm. 98% löglegra fóstureyðinga í Póllandi vegna þessa ákvæðis er vegna fósturskaða — löglegra. Með þessu er ætlunin hjá Lögum og réttlæti og dóminum að þrengja enn frekar að kvenfrelsi og mannréttindum í landinu.

Dómurinn vakti eðlilega sterk viðbrögð í Póllandi með gríðarlegri mótmælaöldu, en einnig á meðal kvenréttindasamtaka víða um heim og hjá Evrópusambandinu, sem harmaði niðurstöðu pólska dómstólsins. Mannréttindadómstjóri sambandsins sagði daginn dapurlegan og forsætisráðherra Íslands lýsti yfir verulegum áhyggjum yfir stöðu kvenna í Póllandi. Ríkisstjórnarflokkurinn í Póllandi, Lög og réttlæti, sem er reyndar systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í ACRE, þ.e. blokk íhaldsflokka í Evrópu sem tortryggja m.a. allt Evrópusamstarf, hefur lengi haft á stefnuskrá sinni að þrengja enn að rétti kvenna til þungunarrofs. Ég geri mér vissulega grein fyrir því að þetta mál er viðkvæmt innan Sjálfstæðisflokksins þar sem átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn þungunarrofi og stjórnarfrumvarpi heilbrigðisráðherra. En ég vil engu að síður spyrja hæstv. ráðherra, af því að hér snýst þetta um réttindi kvenna, þetta snýst um mannréttindi. Ég vil spyrja formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fjármálaráðherra: Deilir hann þessum áhyggjum, sem forsætisráðherra lýsti mjög skýrt hér á Íslandi og reifaðar hafa verið vegna stöðu kvenna í Póllandi? Eða er hæstv. ráðherra á þeirri skoðun að konur eigi algerlega tilneyddar að ljúka meðgöngu þrátt fyrir að ljóst sé að barn muni ekki lifa það af eða töluverð áhætta geti fylgt því, bæði fyrir móður og barn?