151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

lög um þungunarrof í Póllandi.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður er að fara hér. Til dæmis er vísað í það að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki stutt frumvarp til breytinga á reglum um þessi efni. Þá skulum við spyrja okkur hvers vegna það var, um hvað athugasemdir þingmannanna snerust. Snerust þær um það að hv. þingmenn vildu taka upp reglurnar sem er verið að vísa í að gildi í Póllandi? Verið er að gefa það í skyn hér. Þvílíkur þvættingur, þvílíkur málflutningur. Það er algerlega með ólíkindum að hlusta á þetta, þetta er einhver ömurlegasta tilraun sem ég hef hlustað á lengi til að tengja Sjálfstæðisflokkinn við eitthvert hneykslismál út í Evrópu. Má ég biðja um að þetta sé á aðeins hærra plani? Ég styð reglurnar sem gilt hafa á Íslandi og persónulega hafði ég athugasemdir við það við hvaða viku skyldi miðað. Ef það er eitthvað óskýrt þá er sjálfsagt að greina frá því. Fyrir því voru málefnaleg rök og þetta var atriði við lagasetninguna á Íslandi sem var margrætt. Fjölmargar athugasemdir bárust hingað til þingsins, skiptar skoðanir eru um þetta.

Finnst mér að reglurnar í Póllandi séu til fyrirmyndar? Nei. Hef ég áhyggjur af stöðu kvenna vegna þess? Já, mér líst ekki á það. Ég held hins vegar að ef við lyftum aðeins höfðinu og litum víðar í kringum okkur í heiminum myndum við finna fjöldann allan af löndum þar sem staðan er jafn slæm eða verri. Hvað hefur það með Sjálfstæðisflokkinn að gera og atkvæðagreiðslu um mál heilbrigðisráðherra fyrr á þessu ári? Ég skil ekkert hvað er verið að fara.