151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

lög um þungunarrof í Póllandi.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel í fyrsta lagi, af því að hér er farið um víðan völl, að hv. þingmanni, hvað sem henni finnst um það, gangi ekkert sérstaklega vel að koma að einfaldri spurningu. Hún leggur lykkju á leið sína til þess að draga inn í málið alls konar óskylda hluti. Í fyrsta lagi þá ætla ég að segja þetta um stöðu kvenna í Póllandi: Ég hef sömu áhyggjur og forsætisráðherra af þessari breytingu. Við getum rætt það. En hv. þingmaður er að setja hér á dagskrá allan andskotann annan sem hefur ekkert með þetta mál að gera. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts en það hefur ekkert með málið að gera hvort Sjálfstæðisflokkurinn er í flokkasamstarfi á vettvangi Evrópusamvinnu með einhverjum flokkum og það þýði að hann fylgi sömu stefnu og þeir í öllum málaflokknum. Þetta er bara ekki boðleg nálgun. Þetta er bara aum og ömurleg tilraun til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn út af einhverju sem er að gerast úti í Póllandi.