151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þrífösun rafmagns.

[11:09]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Sú sem hér stendur er mikil áhugamanneskja um eflingu byggða um allt land. Þess vegna vakti það mikla lukku þegar hæstv. iðnaðarráðherra sagði í samtali við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur í umræðu um fjármálaáætlun fyrr í haust, með leyfi forseta:

„Varðandi þrífösun rafmagns erum við að fara í meiri háttar framkvæmdir núna. Og með þessari nálgun, að greiða flýtigjald, er okkur í raun að takast að fara í jarðstrengjavæðingu í dreifikerfinu á fimm árum í stað 15. Þannig að við áætlum að ná því á þeim tíma, sem er mikið framfaraskref því að ekki er langt síðan menn sáu ekki fram úr því að geta klárað verkefnið nema á 15 árum en ekki fimm.“

Áformin eru góð en eitthvað annað virðist vera í gangi í raunheiminum. Eðlilega hafa menn um allt land kallað eftir þrífösun því að það eykur möguleika manna til atvinnuuppbyggingar, sem aftur styrkir byggðir. Velti ég fyrir mér víðfeðmum sveitum eins og Fljótsdalshéraði og Jökuldal þar sem langt er á milli bæja og vegalengdir miklar. Samkvæmt upplýsingum sem sú sem hér stendur hefur aflað sér virðist nú stefna í að þessu verði ekki náð á þessum tilgreindu fimm árum. Vil ég því spyrja hæstv. ráðherra hvort möguleiki sé að skilaboðin hafi ekki náð alla leið til þeirra sem vinna eiga verkin. Þá langar mig til að velta því upp hvort ekki sé upplagt að nota ferðina þegar ljósleiðari er lagður og gera þetta um leið. Þessi tilteknu sveitarfélög sem ég nefndi eiga töluvert langt í land, en menn eru tilbúnir með kaplana, eftir því sem ég best veit. Þetta er mikið verk sem þarf að ganga hratt fyrir sig. Ég velti fyrir mér hvort við getum ekki farið betur með fjármunina með því að nýta ferðina.