151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þrífösun rafmagns.

[11:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þær ákvarðanir sem við höfum tekið gera það að verkum að þetta verkefni mun ganga þrisvar sinnum hraðar, ef svo má segja, en við gerðum ráð fyrir. Staða þrífösunar í landinu í heild sinni er að 78% kerfisins eru þriggja fasa og þar af 67% með jarðstrengjum. Á Austurlandi er hlutfallið vissulega lægra, 60% og þar af eru um 53% kerfisins í jarðstrengjum. Dreifikerfi raforku á Austurlandi, sem er á hendi Rariks, er það yngsta í dreifikerfinu.

Þegar við fórum af stað með ljósleiðaraverkefnið, þegar ég var aðstoðarmaður innanríkisráðherra, var mikið lagt upp úr því að reyna að nýta þessi samlegðaráhrif. Það gekk ekki nægilega vel framan af, því miður. Rarik fullyrðir að þau skoði alls staðar mögulega samlegð með ljósleiðara, og bæði fjarskiptafélögin og sveitarfélögin fá upplýsingar um áform Rariks þannig að þessi samlegðaráhrif ættu að vera tryggð í meira mæli. En það er mikill kostnaðarmunur á lagningu ljósleiðara og raforkujarðstrengja og þar af leiðandi kann að vera erfitt fyrir fyrirtæki að elta ljósleiðaravæðinguna alltaf. Það má því vel vera að við getum gert betur í að tryggja að verkefnið nái fram að ganga með þessum hætti. En við höfum samt metnaðarfyllri áætlun núna, við breyttum í raun aðeins um hugsun, nálgun, um það hvernig þetta yrði gert. Við erum auðvitað að setja nýja peninga í þrífösunina til að þetta gangi hraðar fyrir sig, þannig að við setjum flýtigjaldið og framkvæmdirnar fari af stað. Við erum þannig að falla frá þeim áformum sem Rarik hefur hingað til haft um að horfa að mestu leyti á aldur þessara lína. (Forseti hringir.) Það er mikið framfaraskref að ná því fram en hvort við getum gert enn betur — ég er að sjálfsögðu opin fyrir athugasemdum um slíkt.