151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þrífösun rafmagns.

[11:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað varðar mikilvægi þess að jafna dreifikostnað raforku. Ég hef sagt það í riti og ræðum úr þessum stól að í mínum huga sé þessi munur einn helsti og stærsti galli raforkukerfisins sem við höfum hér. Jöfnunargjaldið, sem var sett á laggirnar 2015, átti að duga en það dugar ekki. Það munar um 1.000 milljónum. Eins og staðan er núna þarf 2.000 milljónir til að jafna muninn. Við höfum nokkrar mögulegar leiðir í því en í fjármálaáætlun 2021–2025 gerum við ráð fyrir auknum framlögum til jöfnunar dreifikostnaðar raforku. Gert er ráð fyrir hækkun sem nemur um 730 millj. kr. Það er þá annars vegar 13% hækkun á jöfnunargjaldi raforku, þar sem við erum að uppfæra það með tilliti til verðlags, og hins vegar sérstakt framlag úr ríkissjóði upp á 600 milljónir. Langar mig að geta hakað við þetta, klárað þetta og jafnað að fullu? Vissulega. Það er stórt skref að setja þetta mikla nýja fjármuni í að hækka hlutfallið, sem er í dag um 50%, en við höfum sett okkur markmið um miklu hærri prósentu. Með þessum breytingum (Forseti hringir.) náum við um 85% sem er heilmikil breyting. En ef hægt er á þessum tímum að finna viðbótarfé (Forseti hringir.) til að klára þá mun ég styðja það. En þetta er vissulega meiri háttar breyting frá því sem nú er.