151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilvæga. Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal þjónustu lækna og einnig sérfræðilækna, er nú til dags þau gæði sem fólk leggur áherslu á að séu ekki ýkja langt í burtu. Tíminn sem tekur að komast í þá þjónustu skiptir máli, sérstaklega fyrir eldra fólk og barnafólk, en einnig fyrirhöfnin við að komast í hana.

Ég ætla að ræða sérstaklega aðgengi að sérfræðilæknaþjónustu í Vestmannaeyjum, sem er afar bágborið, svo vægt sé til orða tekið. Ég ætla veita ykkur smáinnsýn í það hvers konar heilbrigðisþjónustu íbúar þar mega búa við. Í Vestmannaeyjum hafa fæðingar lagst af þar sem sérfræðilæknar eru ekki til staðar. Verðandi mæður geta ekki einu sinni fengið þar sónar-þjónustu. Kvensjúkdómaþjónusta er ekki til staðar, húðsjúkdómaþjónusta er ekki til staðar, geðlæknaþjónusta er ekki til staðar, bæklunarlæknaþjónusta er ekki til staðar. Barnalæknir kemur kannski fjórum sinnum á ári og á þeim tíma er allt fullt hjá honum. Sama má segja um háls-, nef- og eyrnalæknaþjónustu, hjartalæknaþjónustu og öldrunarlæknaþjónustu. Betra aðgengi er að skurðlækni, sem nýtist þó ekki sem skyldi þar sem skurðstofan nýtist ekki undir aðgerðir sem krefjast svæfingar þar sem svæfingarlæknar koma sjaldan. Flugið til Vestmannaeyja hefur lagst af og ástandið hefur versnað mjög síðan þá. Sýnaflutningar og flutningar með blóð tefjast von úr viti, jafnvel rannsóknir sem þurfa að gerast mjög hratt tefjast, jafnvel um einn sólarhring. Það kostar fyrirhöfn, áhyggjur og er bagalegt fyrir sjúklinga.

Ég ætla einnig að nefna aukna augnlæknaþjónustu. Heilbrigðiskerfið hefur orðið æ miðstýrðara, sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Öll þjónusta á að fara fram í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum er engin augnlæknaþjónusta. Þar voru 450 komur til augnlæknis á ári þegar þjónusta hans bauðst þar fyrir nokkrum árum. Hver er sparnaðurinn? (Forseti hringir.) Hvað kostar það 450 manns að ferðast til Reykjavíkur, sem tekur yfirleitt tvo sólarhringa? Hvað skyldi það kosta? Í hverju felst sparnaðurinn af því (Forseti hringir.) að koma allri sérfræðiþjónustu fyrir á einum stað á höfuðborgarsvæðinu, við Hringbraut?