151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og fyrir að vekja athygli á mannréttindum almennt í löndunum í kringum okkur. Við gerum aldrei nógu mikið af því að mínu mati og rödd okkar Íslendinga á að heyrast hvað þetta varðar á alþjóðavettvangi. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir það. Hv. þingmaður leggur áherslu á að sýna samstöðu og það er gott og vel en síðan eru náttúrlega skiptar skoðanir á því hvernig við sýnum þessa samstöðu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort að við vinnslu þessarar tillögu hafi verið leitað álits hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi á því hvort hægt sé að taka á móti þessum konum eins og lagt er upp með í tillögunni. Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari hvort hún sjái fyrir sér að þessar aðgerðir yrðu framkvæmdar á einkastofu, hvort sá möguleiki hafi verið skoðaður. Ég kem í næsta andsvari aðeins að kostnaði vegna tillögunnar.