151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:36]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið og fyrir góð orð þegar kemur að því að standa vörð um mannréttindi. Ég veit að hv. þingmaður er líka áhugasamur um mannréttindi og vörslu þeirra. Já, ég hef verið í samtölum við heilbrigðisstarfsfólk. Það er kannski rétt að geta þess að það er erfitt um vik að áætla hversu margar konur eða stúlkur myndu leita hingað til lands. En það ber líka að geta þess að það er hægara um vik fyrir konur og stúlkur frá Póllandi að leita frekar til nágrannalandanna. Ég veit sömuleiðis að það hefur verið komið upp ákveðnum móttökumiðstöðvum, sem eru staðsettar í Amsterdam í Hollandi, Prag í Tékklandi og í Berlín í Þýskalandi, sem bjóða pólskum konum og stúlkum aðstoð við að leita eftir löglegri og faglegri aðstoð þegar kemur að þungunarrofi, kjósi þær að gera svo.

Seinni spurningin var væntanlegan um kostnað. (BirgÞ: Um einkastofur.) Mér er ekki kunnugt um að einkastofur framkvæmi þungunarrof á Íslandi. Þessi þingsályktunartillaga fjallar um að fela heilbrigðisráðherra að tryggja að einstaklingar sem hingað koma til að undirgangast þungunarrof geti það, kjósi viðkomandi að gera svo.