151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil þá koma aðeins að kostnaðinum. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd hef ég verulegar áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og þeirri miklu skuldasöfnun sem núna skellur á ríkissjóð, u.þ.b. milljarður á dag eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest. Ég held því að alveg nauðsynlegt sé í umræðum um þessa tillögu að ræða aðeins þann kostnað sem hugsanlega gæti fallið á ríkissjóð vegna málsins, ef hv. þingmaður gæti farið aðeins yfir það. Auk þess er ekki vitað, eins hv. þingmaður nefndi, hversu margar konur kæmu hingað. Ef svo færi að þær yrðu mjög margar, sér hv. þingmaður fyrir sér að það yrði einhvers konar kvóti? Ég held að það sé alveg ljóst að heilbrigðiskerfið gæti ekki sinnt verulegum fjölda. (Forseti hringir.) Yrði einhver kvóti lagður til og hvernig yrðu konur (Forseti hringir.) hugsanlega valdar til þess að fá að koma hingað, ef út í það færi?