151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi. Mér sýnist þetta vera eindregin stuðningsyfirlýsing við konur í Póllandi, vegna þeirrar hörðu löggjafar sem þar er í sambandi við þungunarrof, að þetta sé hreinlega stuðningur og yfirlýsing um að viðkomandi sé á móti þeirri löggjöf. Ég er það líka. Ég tók eftir því þegar hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir talaði áðan að hún horfði beint á mig þegar hún talaði um einstaka karlmenn í þingsalnum og nýnasista og ég veit ekki hvað. Ég ætla ekki að taka það til mín, ég styð ekki nasista. (RBB: … ekki beint til þín. ) Ég vil ekki ráða yfir líkama kvenna, það kemur ekki til greina, það hefur aldrei verið inni, þær ráða sér alveg sjálfar.

En ég vil spyrja út í þessa þingsályktunartillögu vegna þess að það eru mörg „ef“ í þessu. Heilbrigðisráðherra á að tryggja þeim sem koma hingað heilbrigðisþjónustu ef farið verður út í þetta en það er ekkert vitað hvað þeir yrðu margir, hvort þeir verða 1.000, 10.000, 50.000 eða hvað. Segjum að 5.000 myndu vilja koma inn á einu bretti. Það er ekki vitað hvernig við ætlum að tryggja það, hvernig ráðherra á að tryggja það eða hver á að vita hvernig þetta verður. Maður veit það ekki en maður óttast að rosalegur fjöldi gæti komið. Þá hef ég oft velt fyrir mér, við erum að gera um 1.000 fóstureyðingar á Íslandi á ári: Hvað verður um fóstrið, í sambandi við þessar erlendu konur? Sumar vilja kannski jarða það. Hvernig verður þeim málum háttað? Er lausn á því í þingsályktunartillögunni?