151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki jafn áhyggjufullur og þeir hv. þingkarlar sem hafa raðast hér á undan mér í andsvör við hv. þingkonu. Ég er einn af meðflutningsmönnum málsins og þakka fyrir tækifærið til þess, af því að þetta er fyrst og fremst og umfram allt kannski mikilvæg yfirlýsing frá löggjafarþingi Íslands um að við stöndum með sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Þar er ekki vanþörf á þegar verið er að þrengja að honum um allan heim. Það er ekki óvart eða einhvern veginn, heldur er með skipulögðum hætti verið að berjast gegn þessum réttindum í Evrópu. Þetta gerist ekki af sjálfu sér í Póllandi og á Möltu. Þetta er vegna þess að fólk kemur þangað með peninga og það markmið að þrengja að þessum réttindum.

Mig langar að spyrja þingmanninn, vegna þess að hún situr í utanríkismálanefnd og kvenréttindi eru meðal aðaláherslna Íslands í utanríkismálum, sérstaklega í þróunarsamvinnu þar sem frjósemisréttindi kvenna eru efst á lista hvað varðar þau réttindi sem þarf að berjast fyrir í fátækari ríkjum heims: Hvernig ríma svona hugmyndir við það? Ætti það ekki að liggja beint við fyrir Ísland að vera kyndilberi fyrir þennan málstað?

Hér hefur verið blásinn upp ótti við það að íslenskt heilbrigðiskerfi kikni undan álagi við það að hér flæði yfir landið konur í leit að þungunarrofi. Þetta endurspeglar ekki fjöldann sem er líklegur til að nýta sér þá þjónustu. Og þetta endurspeglar heldur ekki veruleikann á heilbrigðisstofnunum eða veruleika kvenna sem framkvæma þungunarrof vegna þess að á Íslandi fara 80% þungunarrofs (Forseti hringir.) fram með lyfjagjöf, yfirleitt taka konur bara pillu heima hjá sér. Er ekki dálítið verið að (Forseti hringir.) dramatísera þetta úr öllu hófi miðað við allan raunveruleika kvenna sem velja að binda enda á þungun?