151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:50]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Þessi þingsályktunartillaga rímar mjög vel við málflutning Íslands á alþjóðavettvangi og áherslur Íslands í utanríkismálum undanfarin ár og hvernig við höfum talað á alþjóðavettvangi og þess þá heldur að Ísland og íslenska þjóðþingið taki einarða og skýra afstöðu með kvenréttindum vegna einmitt þeirrar stöðu sem við höfum á alþjóðavettvangi, vegna þess að önnur ríki líta til okkar sem fyrirmyndarríkis þegar kemur að jafnréttismálum og réttindum kvenna. Þess þá heldur að við gefum þau skýru skilaboð til Evrópu og til annarra ríkja að við séum tilbúin til þess að halda hér vörð um réttindi og standa gegn því að verið sé að skerða réttindi kvenna.

Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var að benda á, að meiri hluti þungunarrofs fer fram í heimahúsum kvenna. Þær fá lyfjagjöf, fara heim til sín og bíða svo eftir því að lyfið virki. Það er kannski meira andlegt álag á þær konur en beinlínis á heilbrigðisstarfsfólk með einhverjum beinum inngripum, eins og hefur komið fram að margir þingmenn hér óttast.