151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef enga andúð sýnt hér í þessum ræðustól. Enga andúð. Engum, hvorki útlendingum né flutningsmanni þessarar tillögu. Það hefur hvergi komið fram í orðum mínum. Engin andúð.

Ég gleymdi að svara áðan um tillöguflutning minn um heilbrigðiskerfið, hann hefur auðvitað farið fram í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann fór fram á vettvangi þeirra þingflokka í stjórn sem við vorum saman í í þrjú ár, þannig að þingmaður þekkir alveg þær tillögur, þær liggja auðvitað fyrir.

Varðandi biðlistana í Keflavík þá hef ég náttúrlega rætt þá í þinginu og hér í þingsal, en ég hef líka farið sjálfur á vettvang og tekið þátt. Það er ekki til umræðu hér. Hv. þingmaður þarf ekki að segja mér neitt um þá stöðu eða hvað það er og hvað margir leggja hönd á plóg þar. (RBB: … gert í því?) Það eru margir sem vita hvað er gert þar. (RBB: Hvað hefur þú gert í því? Það er spurningin.)

Virðulegur forseti. Það er þannig þegar um svona viðkvæm málefni er að ræða, matargjafir og annað slíkt, þá er nú yfirleitt ekki verið að tala um það á opinberum vettvangi og það er alls ekki verið að tala um nafnalista yfir slíkt, ef verið er að kalla eftir því. (RBB: En það má tala um fóstureyðingar og þungunarrof á opinberum vettvangi.) Það varst þú sem baðst mig um að tala um þetta í Keflavík og þú fórst um víðan völl og talaðir um neyðarlán og Keflavík. Og á ég svo bara að tala um þungunarrof? Þessi tillaga fjallar um álag á heilbrigðiskerfið, tilmæli til heilbrigðisráðherra um að taka á móti konum. Það er það sem ég hef verið að ræða.