151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta en þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað og gera skilmerkilega grein fyrir þessu, vegna þess að í upphafi þessarar umræðu var lagt mikið upp úr því að evrópska sjúkratryggingakortið væri bara lausnin á öllum kostnaði og við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Ég minni bara á, hv. þingmaður, að ég lagði fram fyrirspurn til fjármálaráðherra fyrir ekki svo löngu síðan um kostnað í heilbrigðiskerfinu vegna erlendra ríkisborgara, sem væri ógreiddur. Það er um verulegar upphæðir að ræða þar sem erlendir ríkisborgarar hafa fengið þjónustu á sjúkrahúsum landsins, sem ekki hefur tekist að innheimta. Það er mikið áhyggjuefni. Þetta skiptir hundruðum milljóna króna. Ég segi fyrir mig, í ljósi þess einstaka máls, að ekkert er öruggt í þeim efnum að það verði enginn kostnaður fyrir hér ríkissjóð. Ég held að það sé alveg hægt að slá því föstu.