151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig um grunninn að þeirri lagabreytingu sem við fórum í hér fyrir ári varðandi þungunarrof. Ég studdi það frumvarp, en viðmiðið þar var lífvænleiki fósturs utan móðurkviðar. Við drógum mörkin við það tímamark þar sem fóstur er ekki talið lífvænlegt utan móðurkviðar. Þannig er íslenska löggjöfin, hún byggir á því.

Ég fór líka ágætlega yfir það í ræðum mínum, þegar við ræddum um þungunarrof á sínum tíma, að ég reyndi að velta fyrir mér og sjá fyrir mér allar mögulegar myndir. Ég hef skilning á því að aðilar séu ósáttir við þungunarrof eða fóstureyðingu, eins og hv. þingmaður kallar það, og myndu ekki sjálfir vilja ganga í gegnum slíkt. Það er fullkomlega eðlilegt, myndu jafnvel ekki ráðleggja sínum nánustu að gera það.

En þegar kemur að okkur hér að setja lög í landinu fyrir alla þá þurfum við að hugsa út í alla þætti. Hv. þingmaður nefndi að hann gæti verið hlynntur slíkri aðgerð við ákveðnar kringumstæður. Þá þyrftum við að skrifa það inn í lögin okkar hvaða kringumstæður það eru og hverjir eigi að meta hvort þær kringumstæður eigi við eða ekki. Þegar ég fór í gegnum það ferli þá komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri hið eina rétta að fara þá leið sem við fórum í lögum um þungunarrof, þ.e. að konan ein geti metið það hvort þetta sé rétt ákvörðun fyrir hana. Ekki læknar úti í bæ eða læknaráð, sálfræðingar út frá bakgrunni viðkomandi konu eða greiningu á fóstrinu eða þess háttar. Það er mín afstaða.

Nú er ég bara búin að gleyma hver seinni spurning hv. þingmanns var, hvort þetta væri heilbrigðismál. Það er alla vega þannig að þær stéttir sem sinna ófrískum konum eru heilbrigðisstarfsmenn, ljósmæður og hjúkrunarfræðingar. Já, það hlýtur að vera hluti af heilbrigðiskerfinu. Við tölum um heilbrigði þessara kvenna og hve miklum árangri við höfum náð í góðri heilbrigðisþjónustu fyrir ófrískar konur. Ég held að það sé besta merkið um það, þetta er góður stimpill á okkar góða heilbrigðiskerfi.