151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í sjálfu sér ekki með beina spurningu til hv. þingmanns en mig langar að heyra viðhorf hennar til eins sem ég las á hinu rómaða interneti. Það er í sambandi við pólaríseringu sem hv. þingmaður nefndi, að við sæjum fram á aukna pólaríseringu í samfélaginu gagnvart ýmsum málaflokkum. Það sem ég las á internetinu góða var viðhorf sem ég hef velt fyrir mér síðan, er þetta raunverulega pólarísering? Er ekki frekar þannig að það eru öfgaöfl í aðra átt sem eru að færa hinn svokallaða Overton-glugga í sína átt og hin hliðin er ekki sátt við það. Er þetta eitthvað flóknara en það? Hvar er pólaríseringin? Við sjáum bara fram á meira af öfgastefnuflokkum og öfgastefnuöflum ná pólitískum árangri, t.d. í Póllandi og í Bandaríkjunum. Blessunarlega tapaði Trump reyndar nýlega og við skulum fagna því, loksins gerðist eitthvað almennilegt á heimssviðinu árið 2020.

Mig langaði að falast eftir viðhorfum hv. þingmanns til þessarar hugmyndar vegna þess að ég veit að hv. þingmaður kann að meta málefnalegar umræður eins og sá sem hér stendur. Ég er ekki alveg sannfærður um að hér sé jafn mikið um pólaríseringu að ræða og einfaldlega auknar öfgar og eðlileg viðbrögð við þeim auknu öfgum. Ástæðan fyrir því að ég tel þetta skipta máli, þegar kemur að þessu máli, er sú að þetta atriði finnst mér gegnumgangandi í umræðunni um þetta mál og tengd mál, þ.e. hluti eins og frelsi og réttindi kvenna og þess háttar. Þeir hlutir verða meðal annars undir þegar öfgaöfl ná meiri framgangi. Eins og ég sagði hér í byrjun þá hef ég ekki beina spurningu til hv. þingmanns en hef áhuga á hverju sem hún hefur að segja um þetta eins og um margt annað.