151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aukin skógrækt til kolefnisbindingar.

139. mál
[16:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni fyrir ræðuna. Ég er ásamt þingmönnum Miðflokksins á þessari ágætu tillögu. Nærtækasta og skilvirkasta leiðin til að berjast gegn afleiðingum aukningar kolefnis í andrúmsloftinu er skógrækt og að vernda þá skóga sem fyrir eru, rækta nýja og auka vöxt þeirra. Langstærstur hluti þess kolefnis sem tekið er úr andrúmsloftinu með ljóstillífun fer í að byggja stoðvefi trjáa, en kolefni er um 40% af massa trjáviðar. Í bolum stórra trjáa er því kolefnisforði sem getur verið bundinn þar í marga áratugi eða aldir. Eftir því hvernig sá viður er síðan nýttur getur kolefnið í honum verið bundið mjög lengi í viðbót, t.d. í byggingum. Annar hluti kolefnisins endar síðan í jarðveginum og þar getur það verið bundið í aldir og árþúsundir, svo fremi sem þar verður ekki jarðvegsrof.

Almennt gildir að gróður, þar sem lífmassi eykst ár frá ári eins og í skógi sem er í stöðugum vexti, skilar einnig kolefni til jarðvegsins og því meira eftir því sem vöxturinn er meiri. Kolefnisbinding með skógrækt er tvímælalaust örugg og góð leið til að binda kolefni úr andrúmsloftinu til langs tíma. Það hlutverk skóga fer líka vel saman við annan ágóða skógræktar, ef svo má segja, svo sem jarðvegsvernd, útivist og timburframleiðslu.

Því miður voru framlög ríkisins til skógræktarverkefna skorin mikið niður, eða um helming, eftir efnahagshrunið. Á meðan flest annað sem skorið var niður hefur jafnað sig aftur hafa skógræktarframlög staðið í stað og heldur rýrnað með hækkandi verðlagi.

Í skógrækt sjáum við mikil tækifæri fyrir bændur. Vonandi verða kolefnisverkefni til að styrkja stöðu bænda og byggðar í sveitum landsins. Bændur eru ræktunarfólk og hafa þekkingu og tæki sem þörf er á til þessara verkefna. Skógrækt til kolefnisbindingar fjölgar atvinnutækifærum til sveita og ef til vill geta kolefnisverkefni gert einhverjum bændum kleift að búa áfram sem sjá sér ekki lengur fært að halda áfram hefðbundnum búskap eða vilja minnka við sig. Það er því til mikils að vinna á mörgum sviðum að setja aukinn kraft og aukið fé í skógrækt.

Fyrir skógrækt í landinu er mjög mikilvægt að sterk byggð verði áfram í sveitum landsins og það er þörf fyrir vinnuaflið, bæði við landbótarstarfið sjálft og í framtíðinni við að hirða um og nytja skóginn. Svo verður landið betur fallið til hvers kyns landbúnaðar ef það er vel gróið og nýtur skjólsins sem trén og skógurinn gefa. Það er hins vegar áhyggjuefni að gróðrarstöðvum sem sérhæfa sig í trjáplönturækt hefur fækkað. Það er nauðsynlegt að örva þá atvinnugrein á ný. Það er hlutverk stjórnvalda og mikilvægt að tryggja fullvissu um að staðið verði við aukningu svo að gróðrarstöðvar fáist á komandi árum til að fjárfesta í mannvirkjum, búnaði og mannafla þeirra sem kunna til verka. Það er ekki nóg að planta bara trjánum. Þar þarf náttúrlega gróðrarstöðvarnar til að rækta plönturnar sem við gróðursetjum síðan. Það þekkjum við öll.

Hér á landi er takmarkað svigrúm til að draga úr losun kolefnis þar sem hlutfall endurnýjanlegrar orku er nokkuð hátt hér á landi. Því skiptir þessi bindileið, að binda kolefnið, Íslendinga miklu máli og þar gegnir skógræktin lykilhlutverki. Síðan er nauðsynlegt að renna styrkari stoðum undir landbúnaðinn. Því miður hefur þessi ríkisstjórn ekki verið mjög áhugasöm um landbúnaðinn en hann gæti orðið einn helsti verktakinn í bindingu kolefnis hér á landi og hlutverk bænda í því að mæta alþjóðlegum skuldbindingum Íslands gæti þar með orðið stórt og mikilvægt. Eins og ég nefndi eru bændur ræktunarmenn. Þeir eru í mikilli nálægð við uppgræðslu- og skógræktarsvæði sem best henta og búa yfir þeirri þekkingu og tækjakosti sem til þarf. Þeir geta því bundið kolefni á hagkvæmari hátt en flestir aðrir hópar þjóðfélagsins. Það er rétt að hafa það í huga og nýta þau tækifæri sem felast í því.

Samhliða því að þjóðin hafi beinan hag af slíku þjónustuhlutverki landbúnaðarins eru þarna gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir bændur. Þeir hagsmunir eru margvíslegir. Á mörgum jörðum eru landbætur, stórar eða smáar, ein af forsendum þess að búfjárrækt geti talist sjálfbær. Reynslan, m.a. úr verkefninu Bændur græða landið, sýnir að það er hægur vandi að græða mela og önnur rofsár samhliða nýtingu beitar ef beitarálag er hóflegt. Meiri landkostum fylgir aukið hagræði í búskapnum og möguleikar til að skipuleggja beit betur og fá auknar afurðir. Bændur í búfjárrækt hefðu því beinan arð af uppgræðslunni. Samhliða væri verið að bæta ásýnd sveitanna, auka velvilja þjóðarinnar gagnvart landbúnaðinum og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir, sem ekki veitir af, því æ erfiðara verður fyrir ört vaxandi mannfjölda í heiminum að afla sér fæðu til framtíðar og búa við fæðuöryggi.

Miklir möguleikar liggja í kolefnisbindingu með skóg- og skjólbeltarækt sem hefði jafnframt í för með sér beinan arð og verðmætaaukningu á landinu. Kostnaðurinn er hins vegar meiri en við almennar landbætur en hagkvæmast virðist að breyta auðn í skóg. Möguleikar til atvinnutekna eru meiri í skógrækt því að hún krefst meira vinnuafls miðað við hverja einingu í efniskostnaði. Kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt er stórt byggðamál, við megum ekki gleyma því.

Skattlagning á almenning er ekki lausnin í loftslagsmálum Íslands. Það er skoðun okkar Miðflokksmanna. Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsókn hafa einmitt farið þá leið og hafa í raun og veru það til málanna að leggja að skattleggja almenning til að vinna gegn hinni svonefndu loftslagsvá. Það sannast best í því að kolefnisskattstefna þessarar ríkisstjórnar hefur fengið falleinkunn hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Um það vitnar skýrsla sem stofnunin gaf út fyrir ekki svo löngu síðan, sem hefur því miður fengið allt of litla athygli. Hún sýnir fram á það svart á hvítu að kolefnisgjaldið sem er lagt á t.d. bensín og dísil, rúmar 11 kr. á dísillítrann og rúmar 10 kr. á lítra af bensíni, skilar ekki þeim árangri sem menn hafa haldið. Auk þess er það fjármagn sem kemur inn, sem eru um 6 milljarðar á ári, voru 3,5 milljarðar þegar þessi ríkisstjórn tók við, ekki nýtt (Forseti hringir.) sem skyldi til að berjast gegn hlýnun loftslags. (Forseti hringir.) Framlag til Íslands (Forseti hringir.) til loftslagsmála á að vera stóraukin skógrækt og landgræðsla. Það er skynsamlegasta og áhrifaríkasta leiðin (Forseti hringir.) og þessi tillaga gengur m.a. út á það.