151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aukin skógrækt til kolefnisbindingar.

139. mál
[16:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir framsögu hans í þessu stóra og merkilega máli um aukna skógrækt til kolefnisbindingar. Hann fór vel yfir um hvað málið snýst, hversu mikil nauðsyn er á því að fara í þessa vinnu og að umhverfis- og auðlindaráðherra sé falið að gera það. Ég ætla að grípa aðeins hérna niður í mjög góðri greinargerð þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nægt land er tilbúið til ræktunar, t.d. samningslönd um 650 bænda í tengslum við skógrækt á lögbýlum um land allt og víðfeðm, beitarfriðuð uppgræðslulönd Landgræðslunnar. Ýmis verkefni á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka í skógrækt eru starfrækt, svo sem Landgræðsluskógar og Hekluskógar og samstarf Skógræktarinnar við Landgræðsluna og sveitarfélög um nýskógrækt á Hafnarsandi (Þorláksskógar), á Hólasandi og víðar. Allir innviðir eru til staðar svo auka megi nýskógrækt, svo sem gróðrarstöðvar, fagfólk, sérfræðingar í rannsóknum og nauðsynlegur tækjabúnaður. Kostnaður við aukna nýskógrækt árin 2022–2032 er áætlaður á núvirði 15 milljarðar kr. Er það aðeins brot af samfélagskostnaði sem Íslendingar og íslensk fyrirtæki gætu þurft að greiða með einum eða öðrum hætti náist ekki að standa við Parísarsamkomulagið.“

Það styður enn frekar undir það að fara skuli í þessa vinnu.

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að sem betur fer eigum við Íslendingar nægt landrými til skógræktar. Skógrækt þjónar margvíslegum tilgangi. Skógar gegna mikilvægu hlutverki við kolefnisbindingu. Í annan stað nýtast skógar sem byggingarviður. Þeir eru notaðir sem skjólbelti sem hjálpa annarri ræktun til uppgræðslu og þeir vinna gegn landeyðingu og uppfoki.

Í umræðunni þessa dagana er mikið rætt um kolefnisbindingu. Mig langar í því sambandi að nefna hvað hinar ýmsu trjátegundir binda. Ég leyfi mér að vitna í Eddu S. Oddsdóttir, sviðsstjóra rannsóknasviðs Skógræktarinnar, með leyfi forseta:

„Þegar illa farið eða örfoka land breytist í skóg verður mikil og hröð binding kolefnis. Hversu hröð hún verður fer eftir því hvaða trjátegund er notuð. Mælingar hafa sýnt að hraðvaxta alaskaösp bindur hvað mest, vel yfir 20 tonn af CO2 á hektara á hverju ári þar sem best lætur. Barrtegundir, t.d. lerki, stafafura og sitkagreni, binda 7–11 tonn af CO2 á hektara á ári en bindingin er minni hjá íslenska birkinu, 3,5 tonn CO2 á hektara á ári, enda vex það hægar.“

Framræst land hentar vel til skógræktar. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort við séum á réttri leið varðandi endurheimt votlendis. Það mætti vafalaust nýta talsvert af framræstu landi til skógræktar. Mér finnst það við hæfi að nefna hér það frumkvöðlastarf sem Skógræktin hefur unnið allt frá upphafi síðustu aldar. Helstu rannsóknarsvið hennar eru erfðaauðlindir, landupplýsingar, nýræktun skóga og skjólbelta, loftslagsdeild, skógur og samfélag, trjá- og skógarheilsa, umhirða og afurðir skóga og vistfræði skóga.

Mig langar til gamans að nefna að ég keyri reglulega vestur á Snæfellsnes enda bý ég þar. Það gleður mig alltaf að sjá myndarlegan asparskóg sem ræktaður er í Hraunhreppi á Mýrum. Ég veit ekki hvort um er að ræða skóg til trjánytja, en þar er a.m.k. myndarlegt skjólbelti. Mér finnst einnig við hæfi að nefna að skógræktarfélög víðs vegar um land hafa ræktað myndarlega skóga mikið til í sjálfboðavinnu, sem fegra ásýnd landsins og eyjar og gleðja og vekja ánægju allra sem koma að því verki. Þar er einmitt unnið mikið og gagnlegt starf í sjálfboðavinnu, sem er góðra gjalda vert. Sælla er að gefa en þiggja, segir á góðum stað.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég bind miklar vonir við að þetta mál fái framgöngu í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir að koma með þetta mál á dagskrá hér í þinginu.