151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aukin skógrækt til kolefnisbindingar.

139. mál
[16:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það mál sem við ræðum hér, tillaga til þingsályktunar um aukna skógrækt til kolefnisbindingar, er líklega grænasta mál og eitt mesta umhverfismál sem kemur til kasta haustþingsins. Þess vegna verð ég að viðurkenna það, herra forseti, að ég er ögn hissa á því að hér séu engir fulltrúar flokka sem töluðu í nýlegri umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, þar sem stóð upp úr hverjum manni á fætur öðrum, og konu: Græn skref, græn atvinna, græn framtíð. Einn stjórnmálaflokkur hélt reyndar landsþing nýlega þar sem hann fékk að láni tvo þriðju af yfirskrift flokksþingsins frá öðrum ellihrumum stjórnmálaflokki, mig minnir að hún hafi verið: Vinna, velferð, græn skref. Hér í þessari umræðu er enginn frá þeim flokki. Ég vona, herra forseti, að þetta sinnuleysi þeirra sem töluðu hér um græn skref, græna framtíð og græn störf og allt það í stefnuræðunni — þetta var reyndar svona dæmigerð límmiðapólitík eða merkimiðapólitík — sé ekki merki um að tillagan fái ekki brautargengi, en við Miðflokksmenn látum frekar verkin tala og þess vegna berum við þetta mál hér fram sem er eitt stærsta umhverfismál sem verður hér til umræðu á haustþinginu.

En þetta er ekki bara umhverfismál, herra forseti. Þetta er líka atvinnumál vegna þess að það að græða landið upp með því að planta 12 milljónum trjáa á hverju ári til framtíðar veitir í fyrstu atrennu að sjálfsögðu atvinnu við útplöntunina og umsjón með ungplöntum en þegar tímar líða fram verða til störf við grisjun og það þarf ekki mjög mörg ár þangað til fyrsta grisjun á sér stað, sérstaklega ef um hraðvaxta tré er að ræða. Þegar fram í sækir svo aðeins lengra verður gróðursetning af þessu tagi undirstaða iðnaðar, vinnslu trjáa, sem skapar líka störf, sérstaklega á landsbyggðinni og veitir nú ekki af. Þetta bætir vatnsbúskap og gróðurþekju landsins þegar fram í sækir og þetta kolefnisbindur að sjálfsögðu. Það veitir ekki af þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að borga milljarða í sektir vegna losunar. Hér hefur verið í gangi tilraun í þá átt að moka ofan í skurði, það sem kallað er endurheimt votlendis, sem hefur ekki verið rannsakað vísindalega að bindi raunverulega kolefni. En menn hafa bitið það í sig að þetta sé skynsamlegt að gera og hafa byrjað á því víða um land, m.a. við forsetabústaðinn á Bessastöðum. Ég segi aftur: Það eru engin vísindaleg rök komin fram fyrir því að þetta geri yfirleitt eitthvert gagn.

Nú ætla ég að taka sérstaklega til þann flokk sem kallar sig grænan, Vinstri græn, sem hefur áhyggjur af útblæstri, að sögn, en hefur t.d. staðið fyrir því að stór erlend skip geta brennt svartolíu á leið sinni til Íslands, alveg upp í 12 mílur, herra forseti. Víðast hvar um heim eru þessi mörk 200 sjómílur, þ.e. efnahagslögsagan eins og hún leggur sig. Nei, ekki hér, 12 mílur skulu það vera. Við erum að urða hér sorp í hundraða þúsunda tonna vís á ári. Við höfum lagt fram, Miðflokksfólkið, undir forystu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, að rannsaka og athuga beri hagkvæmni þess að reisa hér alvöruhátæknisorpbrennslu sem gæti dugað til orkuframleiðslu líka ef hún væri t.d. á köldum svæðum. Þegar við verðum fyrir áföllum, eins og nýlega þegar þarf að skera niður stóran fjárstofn vegna riðu, sem er hörmulegt mál og sorglegt í alla staði, þá höfum við ekki brennslu sem ræður við að taka þann topp og brenna það sem til fellur. Menn hafa því illu heilli ákveðið og samþykkt að urða allnokkur hræ. Riða hefur elt okkur Íslendinga um áratugaskeið. Menn hafa sagt: Það er ekki nóg að fella stofninn og það er ekki nóg að sótthreinsa öll hús vegna þess að þetta kemur jafnvel upp í grasi en við ætlum að urða þessa skrokka vitandi þó þetta eða hafandi þó vísbendingar í þessa átt. Þetta er reyndar ekki það eina sem er hulið sjónum okkar en liggur í jörðu hér því að víða um land eru upptök miltisbrands vegna þess að nautgripir hafa verið urðaðir.

Þetta allt, herra forseti, er dæmi um það hvernig umhverfismál á Íslandi virðast hverfast um aukaatriði. Við bönnum plastpoka en við segjum ekki nei við urðun. Við bönnum plastpoka en við leyfum svartolíubrennslu hér alveg upp í landsteina og vel að merkja, sem ég gleymdi að segja áðan, hafa menn heldur ekki komið sér saman um það að haga orkuframboði þannig að hægt sé að hafa stór skip við rafmagnstengingu í landi, vegna þess að menn hafa ekki komið sér saman um það hver eigi að bera kostnaðinn af nauðsynlegum aðveitustöðvum. Þetta er náttúrlega, herra forseti, fyrir neðan allar hellur, en við bönnum plastpoka.

Ég held stundum að við Íslendingar höfum þá stefnu í umhverfismálum að meðan við sjáum ekki mengunina sé hún ekki þarna. Gott dæmi er að sú mengun sem er af umferð í Reykjavík. Við hrökkvum við á björtum haustköldum og vetrarköldum dögum þar sem við sjáum mengunina fyrir okkur, mengun sem að meiri hluta til er vegna þess að gatnakerfið í Reykjavík er það illa skipulagt og ljós ekki samstillt að menn sitja í bílum sínum í biðröðum og við rauð ljós mjög víða þar sem væri hægt að hafa mjög greiða umferð. Á þessu er enginn skilningur og við tökum aldrei eftir þessu nema þegar við sjáum þetta. Annað dæmi er það sem ég bar upp hér áðan, sorpurðunin. Birst hafa mjög sláandi myndir af urðunarstöðvum víða um land sem eru komnar í takmörk á afkastagetu og það verður til þess að sorp fýkur um og er til vansa.

Herra forseti. Það þarf alvöruaðgerðir eins og þá sem lögð er til hér í þessari þingsályktunartillögu og þess vegna vona ég innilega að það áhugaleysi sem birtist hér í umræðunni af hálfu annarra flokka en þingmanna Miðflokksins sé ekki vísbending um að þessi merkilega tillaga fái ekki brautargengi og verði ekki afgreidd snarlega og vel í gegnum nefnd þingsins.