151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aukin skógrækt til kolefnisbindingar.

139. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls í umræðu um þetta mál. Margt kom þar fram athyglisvert og gagnlegt sem nýtist áfram í vinnu við að mæla fyrir þessu máli og reyna að vinna því fylgi. Ég veit auðvitað að skógrækt nýtur mikils fylgis. Við Íslendingar erum þó svolítið feimnir og höldum að Ísland verði á svipstundu eins og við sjáum víða í Evrópu og að við missum útsýnið. Menn eru svolítið mikið að tala um það. En við erum ekki að tala um það. Við erum ekki að tala um að landið verði þakið einhverjum frumskógi. Varðandi t.d. kolefnisbindinguna verða menn að átta sig á því að við þurfum ekki að þekja nema um 2% landsins af öflugum trjátegundum til að binda alla losun okkar á koltvísýringi. Það er ekki mikið. Eyðisandar Suðurlands eru t.d. stærri hluti af landinu og auðnir eru víða um land, þannig að það er alls ekki verið að tala um að landið verði allt vaxið háum trjám, alls ekki svo. Þetta er í raun og veru mjög lítið.

Við skuldum landinu. Hér við landnám var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru eins og frægt er úr Íslendingabók. Nú eru einungis 1–2% landsins þakin skógi, mest af því er kjarr og lágvaxið birki þannig að við skuldum landinu. Við höfum misst mikinn jarðveg, mikinn gróður. Við þurfum að binda og græða það upp. Við þurfum að endurheimta landgæðin. Besta leiðin til þess er skógrækt og landgræðsla auðvitað. Í heimi dagsins í dag þar sem mannkynið berst við loftslagsvána er augljóst að rétta leiðin til að gjalda okkar skuld er binding kolefnis og auðveldasta og einfaldasta leiðin við það er skógrækt. Fyrir utan það hefur hún marga aðra kosti, hliðarkosti eins og timburafurðina; eldivið, smíðavið í byggingar, og skjól fyrir mannfólkið og búpening, aukið dýralíf og svona mætti lengi telja, eins og ég fór yfir í minni fyrstu ræðu. Það er allt að vinna.

Ég átta mig eiginlega ekki á því af hverju við Íslendingar erum ekki miklu fyrr farnir þessa leið. Við höfum gert tilraunir. Við höfum fetað þessa slóð rólega. Það eru ekki margir áratugir síðan við trúðum því bara alls ekki að hér gæti vaxið skógur. Ég var nú ekki gamall þegar nokkur hávaxin tré vöktu furðu og undran. Nú er þetta nokkuð algengt. Ég held að Íslendingar ættu að gera sér grein fyrir því að hér eru fullkomin skilyrði til að rækta öfluga skóga sem geta nýst, ekki bara sem skraut heldur til nytja. Það yrði auðvitað nýr atvinnuvegur um allt land ef þetta yrði byggt upp.

Í frétt í vikunni í Fréttablaðinu var verið að fjalla um að ljóst væri að Ísland næði ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni á því tímabili sem lýkur um næstu áramót. Í fréttinni kom einnig fram að samkvæmt mati Umhverfisstofnunar stefnir í að kaupa þurfi losunarheimildir sem svarar 4 milljónum tonna af koltvísýringsígildum. Það kom fram að óljóst væri hver kostnaðurinn yrði en ljóst að hann hlypi á milljörðum króna. Síðar í fréttinni er áætlun um að þetta gæti kostað okkur 16 milljarða, herra forseti, miðað við núverandi verðlag. En líklega bíða menn og verðið mun þá kannski hækka og þá mun þetta kosta meira. Þetta er eins og á verðbréfamörkuðum, menn vita aldrei hvenær á að stökkva á vagninn. En þetta er há fjárhæð og við höfum ekki efni á þessu. Við eigum auðvitað að setja kraft í hluti eins og skógrækt til að koma í veg fyrir að þetta muni sliga okkur í framtíðinni. Við skuldum landinu.

Nú eru þessi stjórnvöld búin að vera hér í þrjú ár. Sannleikurinn er sá, herra forseti, að engin veruleg aukning hefur orðið í skógrækt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Aukningin felst aðallega í því að gróðursetja birki sem bindur einungis brot af því sem afkastameiri trjátegundir gera, kannski sex- til áttfalt minna en þær trjátegundir sem við höfum reynslu af og þekkingu á hér á landi, áttfalt minna en bestu tegundirnar. Ef litið er á árangur er þetta lítið. Menn eru ekki að standa sig, hvorki fyrri ríkisstjórnir, eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði í þessari sömu frétt, né núverandi ríkisstjórn. Aðgerðirnar eru ekki nógu kraftmiklar.

Í þessari tillögu er bent á ýmislegt til að snúa þessari þróun við, snúa við og ganga þessa leið þar sem við munum uppfylla skuldbindingar okkar smám saman. Við eigum að gera það hratt. Við eigum að byrja strax á öflugum aðgerðum. Tækifærin eru hér og þau liggja beint fyrir framan okkur. Við erum svolítið, herra forseti, að beina sjónum okkar í rangar áttir, beina fjármagninu stundum í rangar áttir. Við höfum stýrt fjármagninu svolítið mikið til að byggja upp báknið í þessum málum, þ.e. umhverfismálunum. Báknið hefur stækkað en skógrækt hefur ekki aukist neitt að ráði síðan fyrir hrun þegar hún náði hæstu hæðum. Báknið hefur stækkað miklu meira en það.

Við þurfum að reyna að hugsa fyrir því í hvað við eyðum fjármagninu. Athyglin og fjármagnið hefur oft farið í gagnslitlar aðgerðir, eigum við ekki að orða það þannig, eða ósannprófaðar aðgerðir í umhverfismálum og loftslagsmálum, stundum í öfugu hlutfalli við væntan árangur. Árangurinn er lítill miðað við þann kraft, það fjármagn og þá athygli sem í það er lagt. Ég tók eitt dæmi, ég get tekið fleiri. Ég tók dæmi um birkið. Birki er fallegt tré og okkur þykir vænt um okkar birki sem er innlend trjátegund og fjalldrapinn sjálfsagt líka. En ef menn ætla að binda kolefni og standa við loftslagsskuldbindingar Íslands þá er það ekki rétta tegundin til að leggja kraftinn í. Það má að sjálfsögðu vera með, en það er ekki rétta trjátegundin til að uppfylla skuldbindingar okkar. Til þess eigum við, og höfum reynslu af hér á landi, miklu betri lausnir og betri trjátegundir eins og ösp og greni. Þær má gróðursetja víða í okkar skóglitla landi. Þó að skógur hafi vaxið hér langt umfram vonir erum við rétt að byrja að feta þann veg sem við getum. Skógur vex hér ágætlega víðast hvar um landið þannig að tækifærin eru næg og þau eru alls staðar. Einhvern tíma munu augu manna opnast fyrir þessu og menn fara í þetta af alvörukrafti eins og ég er að leggja til í þessari tillögu.