151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

tekjuskattur.

29. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Ásamt mér eru flutningsmenn þessa frumvarps hv. þingmenn Njáll Trausti Friðbertsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Brynjar Níelsson og Páll Magnússon.

Þetta er í annað skipti sem frumvarp þetta er lagt fram. Það kom fyrst fram á síðasta þingi en með því er einstaklingum veitt heimild, með ákveðnum takmörkunum, til að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóðs sem eru skráðir á skipulegan verðbréfamarkað eða fjárfesta eingöngu í skráðum hlutabréfum.

Frumvarpið byggist á grunni þágildandi 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt, en ákvæðið var fellt brott úr lögunum árið 2002. Þegar lögin voru sett á sínum tíma var miðað við eignarhald á hlutabréfunum í þrjú ár og við það er miðað hér, en fjárhæðir hafa verið framreiknaðar til verðlags 2020.

Með frumvarpi þessu er hins vegar eingöngu lagt til að heimilt verði að fjárfesta í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga, þ.e. skráð hlutabréf. Eldri lögin gerðu ráð fyrir því að hægt væri að kaupa í óskráðum hlutabréfum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en þá þurfti ríkisskattstjóri að staðfesta að hlutabréfin féllu undir þessi skilyrði. Með því að leggja til að eingöngu verði heimilt að fjárfesta í skráðum hlutabréfum er ferlið við skattafsláttinn einfaldað auk þess sem almenningur nýtur lögbundinnar fjárfestaverndar með kaupum á skráðum hlutabréfum. Flutningsmenn telja hins vegar að víkka eigi heimildina út á komandi árum, svo það sé tekið fram.

Eins og kemur fram í greinargerðinni eru margvíslegar reglur sem gilda um viðskipti með skráð hlutabréf og hygg ég að best sé að vísa í greinargerðina að öðru leyti í þeim efnum. Þær reglur miða auðvitað fyrst og fremst að því að tryggja fjárfesta og tryggja þeim greiðar upplýsingar o.s.frv., þannig að þeir geti tekið ákvarðanir sínar með upplýstum hætti þegar þeir eiga viðskipti með skráð hlutabréf.

Hlutabréfamarkaðurinn er mikilvæg uppspretta fjármagns og gerir fyrirtækjum kleift að afla sér viðbótarfjármagns í formi nýs hlutafjár. Markaðurinn veitir jafnframt skráðum félögum aðhald þar sem þau búa við mikla upplýsingaskyldu sem leiðir að öðru óbreyttu til aukins aga, vandaðra stjórnarhátta, gagnsæis, trúverðugleika, og ekki síst skilvirkni í rekstri. Sagan sýnir að skilvirkur hlutabréfamarkaður er óaðskiljanlegur frá öflugu efnahagslífi og hagvexti þróaðra þjóða. Sterkur markaður þar sem fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármagni sem nýta má til fjárfestingar og vaxtar er þjóð allri til hagsbóta.

Skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa, hvort heldur sem er í sjóðum eða stökum hlutabréfum, hvetur til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að búa til meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir. Slík fjölgun getur liðkað fyrir viðskiptum með því að auka seljanleika og þannig dregið úr flökti á markaði ásamt því að auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar. Skattafslátturinn hvetur heimilin til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þeirra afleiðinga sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér. Við þetta má bæta að afslátturinn hvetur einnig til þess að heimilin nýti sér þær sparnaðarleiðir sem þeim standa til boða, að teknu tilliti til áhættu og ávöxtunar, og nýti sér möguleikann á frekari áhættudreifingu.

Við lok árs 2018 var verðbréfaeign heimilanna aðeins um 7,6% af heildareignum og hefur ekki mælst minni frá því að mælingar hófust. Hæst fór hlutfallið í ríflega 14% árið 2007 en féll niður í 8,6% við fjármálahrunið 2008 og hefur í raun ekki náð sér á strik síðan. Verðbréfaeign heimila er ekki aðeins lítil í sögulegum samanburði heldur einnig í norrænum samanburði líkt og sést á mynd sem fylgir með greinargerð þessa frumvarps.

Bein eignarhlutdeild einstaklinga í markaðsvirði skráðra hlutabréfa á Íslandi er nú einungis um 4–5% samanborið við 11–17% á árunum 2002–2007. Hin litla beina þátttaka almennings er áhyggjuefni bæði með hliðsjón af hagsmunum einstaklinganna sjálfra sem og íslensks atvinnulífs. Það kemur ekki í sama stað niður að einstaklingar fjárfesti óbeint í hlutabréfum í gegnum lífeyrissjóði og, í takmörkuðum mæli, verðbréfasjóði.

Fjármögnunarmöguleikar íslenskra fyrirtækja, ekki síst smárra og meðalstórra fyrirtækja, eru til að mynda vafalaust lakari en ef sparnaður almennings færi eftir fleiri farvegum í fjárfestingar í atvinnulífinu. Lífeyrissjóðir kjósa fyrst og fremst að fjárfesta í stærri fyrirtækjum. Vegna umfangs lífeyrissjóða á markaði og tiltölulega lítillar þátttöku annarra fjárfesta geta fyrirtæki sem eru minni en 10 milljarðar kr. að markaðsvirði átt erfitt uppdráttar á íslenskum hlutabréfamarkaði. Reynslan erlendis sýnir að fyrirtæki af þessari stærðargráðu, undir 10 milljörðum að markaðsvirði, geti verið vel fær um að mæta kröfum hlutabréfamarkaðar og notið mjög góðs af skráningu ef þau búa við réttar aðstæður. Þannig eru til að mynda um 70% félaga á First North markaði Nasdaq á Norðurlöndum minni en 5 milljarðar kr. að markaðsvirði og 87% minni en 10 milljarðar kr. Sjálfsagt ræður nokkru að þátttaka almennra fjárfesta hefur verið mikil á First North markaðnum. Lítil þátttaka almennings á íslenskum hlutabréfamarkaði skapar þá hættu að íslensk fyrirtæki telji hag sínum best borgið utan landsteinanna, sérstaklega smærri vaxtarfyrirtæki sem njóta síður athygli stærstu fjárfesta á íslenskum markaði.

Herra forseti. Ég vil að lokum bara ítreka: Við stöndum á ákveðnum tímamótum þegar kemur að endurreisn íslensks atvinnulífs. Við eigum að opna á þann möguleika fyrir íslenskan almenning að taka þátt með beinum hætti í þeirri endurreisn vegna þess að það mun skipta máli fyrir okkur öll hvernig til tekst varðandi lífskjör hér á komandi árum og áratugum. En við eigum líka að hafa í huga að með því að auka möguleika einstaklinga og heimilanna á að taka með beinum hætti þátt í endurreisninni með skattalegum ívilnunum, eins og hér er lagt til, þá eru líkur á því að hér verði til vaxtarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki, sem geti með skráningu á hlutabréfamarkaði sótt sér áhættufé í reksturinn. Við munum njóta þess öll sameiginlega.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.