151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

flóðavarnir á landi.

147. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um flóðavarnir á landi. Það er jú þannig að náttúran, sú dauða, eins og við köllum stundum, lætur ekki að sér hæða, samanber nýliðna jarðskjálfta. Það er þörf á að hafa varann á sér. Þingsályktunartillagan snýst um flóðavarnir vegna þess að hættur á óðaflóðum, skulum við segja, eru allmiklar á Íslandi. Það eru vorleysingar og miklar hlákur, það eru eldgos sem valda flóðum, brostnar jökulstíflur valda flóðum og berghrun getur gert það líka, sérstaklega ofan í vatn, og svo eru sjávarflóð býsna algeng þegar þannig háttar til með storma og lágan loftþrýsting og annað slíkt. Ég mun ekki fjalla um sjávarflóð í þessari þingsályktunartillögu heldur hin landrænu.

Flutningsmenn ásamt mér eru Ásmundur Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Oddný G. Harðardóttir, Vilhjálmur Árnason og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Þingsályktunartillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem leysi eftirfarandi verkefni er snúa að flóðavörnum á landi, í samvinnu við Landgræðslu ríkisins:

1. Vinni úttekt á ástandi flóðavarna við helstu jökulár landsins og helstu önnur vatnsföll sem valdið geta skaða.

2. Greini stöðu og mikilvægi þeirra flóðavarnaverkefna sem bíða aðgerða hjá Landgræðslunni, bæði stöðu verkefna hjá einkaaðilum sem sækja um styrki og verkefna er vinna þarf að frumkvæði sveitarfélaga, ráðuneyta, Vegagerðarinnar eða Landgræðslunnar.

3. Forgangsraði verkefnum með tilliti þess hve brýn þau eru og með hliðsjón af áhættumati Veðurstofunnar.

4. Leggi fram tillögu að áætlun um aðgerðir, jafnt til viðhalds sem nýframkvæmda, þar sem kostnaðarmat hvers verkefnis kemur fram.

Starfshópurinn ljúki störfum og skili skýrslu fyrir lok júní 2021. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en við upphaf 152. löggjafarþings.“

Þannig hljóðar tillagan. Í greinargerð er þess getið að tillagan er lögð fram í þriðja sinn vegna þess að bæði á 149. og 150. löggjafarþingi kom hún fram en var ekki afgreidd.

Landgræðslan hefur það hlutverk að meta hvar þörf er á varnaraðgerðum til að draga úr landbroti eða að koma í veg fyrir það, þ.e. jarðvegsrof og gróðureyðingu o.s.frv. Þessar aðgerðir eru fólgnar í ýmiss konar fyrirhleðslum eða gerð varnargarða. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Það er eðli sumra þessara áa eða vatnsfalla að flæmast um farveg sinn, jökulár eru mjög þekkt dæmi þess og dragár gera það líka, þannig að það þarf að reyna að stýra þessum vatnsföllum eins og unnt er. Landgræðslan stundar samstarf við Vegagerðina um varnir gegn niðurbroti gróðurlendis og til varnar samgöngumannvirkjum, svo sem vega og brúa, og geta stofnanirnar skipt með sér kostnaði. Það eru gjarnan gerðir formlegir samningar um ábyrgð, og vil ég bara nefna sem dæmi að við Markarfljót við Eyjafjallajökul eru 40 varnargarðar sem eru 40 km langir samfellt. Þannig að menn sjá að það að hemja eitt jökulfljót er töluvert mikið mál.

Vegagerðin sér oft um verkfræðilegan undirbúning, einkum ef verkin eru stór, en Landgræðslunni er líka heimilt að styrkja framkvæmdir við fyrirhleðslur sem eru ætlaðar til þess að vernda mannvirki eða land í eigu einkaaðila. Hámarksupphæð styrkja undanfarin ár hefur verið um 3 milljónir og á hverju ári hafa slíkar umsóknir verið milli 40 og 60. Það hefur ekki verið unnt að verða við nema hluta þeirra beiðna sem berast árlega um margvíslegar aðgerðir. Það er auðvitað reynt að forgangsraða og meta og á ræktarland, hugsanlegar skemmdir, nytjalönd og annað gróðurlendi jafnan að njóta forgangs við röðun verkefna. Meðal stærstu og þýðingarmestu verkefna eru viðhald og viðbætur við flóðavarnir við Markarfljót, Héraðsvötn, Skaftá, Kúðafljót og vatnsföll á Mýrum eystra, ásamt í Hornafirði, Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá í Lóni.

Það er mikilvægt að minna á að þegar metið er mikilvægi verkefna í flóðavörnum er oft höfð hliðsjón af áhættumati vatnsflóða sem unnið er á Veðurstofu Íslands.

Undanfarin 10 ár hefur fjárveiting til landbrots af völdum fallvatna haldist óbreytt í kringum 70–80 milljónir á ári en kostnaður hefur hækkað töluvert. Árið 2010 var unnið að um 45 verkefnum en 2017 voru verkefnin 18. Verkefnin voru 17 talsins 2018 en aðeins 10 árið 2019. Það hefur sínar skýringar sem ég ætla ekki að rekja hér. Þannig hefur orðið til biðlisti með mörgum tugum verkefna og gengið hægt að stytta hann.

Ég ætla ekki að fara ofan í miklar tölur en vil bara minna á það að jökulár geta auðveldlega tíu- eða tuttugfaldað rennsli sitt og jökulhlaup geta orðið gríðarlega stór, 50.000–200.000 rúmmetrar á sekúndu eða fimmtán- til sjötugfalt rennsli Ölfusár. Það má líka taka tillit til þess að ýmsar stórar eldstöðvar sýna merki þess að kvika safnast til þeirra; Katla, Bárðarbunga, Öræfajökull, Grímsvötn. Það hafa líka orðið til nýjar aðstæður sem gætu tengst sífreraminnkun, þ.e. sífreri hátt til fjalla er að þiðna, og eins því að jöklar eru að styttast og þynnast. Aðstæður við Svínafellsjökul eru t.d. þannig að þar er hætta á stórfelldu berghlaupi, hruni, niður á Svínafellsjökul og svo fram í lónið sem hefur myndast fyrir framan hann. Það gæti valdið verulegu jökulhlaupi eða vatnshlaupi sem þarf auðvitað að skoða hvort ekki þurfi að verjast með einhverjum mögulegum aðferðum.

Það er líka hægt að nefna þau gleðilegu tíðindi að byggður hefur verið viðbótarvarnargarður austan Víkur, milli Víkur og Höfðabrekku, til að auka líkur á því að jökulhlaup vegna eldgoss í Kötlu valdi ekki alvarlegu tjóni í kauptúninu sjálfu.

Það eru nokkrar byggðir landsins sem eru í sérstakri hættu vegna flóða í stórám og eiga sína tilvist að einhverju leyti undir varnargörðum sem standast áhlaup. Þar má nefna Landeyjar, Álftaver, Vík, eins og ég nefndi, land við Hvítá í Árnessýslu og Kelduhverfi. Þetta eru allt byggðir við jökulár. Svo þurfa byggðir við dragár á borð við Stóru-Laxá líka á flóðavörnum að halda.

Loftslagsbreytingar undanfarinna ára og reynsla af skyndilegum vatnavöxtum vegna aukinnar skammtímaúrkomu valda áhyggjum samhliða skorti á fé til viðhalds og endurnýjunar flóðavarna allvíða um land, í a.m.k. áratug eða enn lengur.

Herra forseti. Það er einfaldlega þannig að varnir gegn náttúruvá eru ákaflega mikilvægur samfélagsþáttur á Íslandi vegna þess hvernig náttúrufarið er. Það er þess vegna sem við leggjum fram þessa þingsályktunartillögu og vonum að hún nái alla leið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og fái þar áframhaldandi brautargengi.

Þar með hef ég lokið kynningu á þessari tillögu til þingsályktunar um flóðavarnir á landi.