151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

238. mál
[18:27]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Litlar virkjanir eiga sér langa sögu á Íslandi, við þekkjum þær allt frá því snemma á síðustu öld og allt gott um það að segja. En þetta orð eða hugtak, smávirkjanir, er ósköp misvísandi. Eins og hv. þingmaður fór yfir gildir það fyrir allt upp í 5–10 MW virkjanir, sem eru auðvitað engar smávirkjanir. Mjólkárvirkjun er 8 MW og gamla Elliðaárvirkjunin er 3,2, Ljósafossvirkjun er 14. Þetta eru allt tiltölulega stór mannvirki þannig að auðvitað væri betra að kalla þær, þessar sem ég er að tala um, bara meðalvirkjanir.

Þegar ég les í gegnum greinargerðina og hlusta á hv. þingmann þá sýnist mér tillagan eiga fyrst og fremst við C-flokkinn í umhverfismatinu, sem eru 200 kW virkjanir, þ.e. 0,2 MW eða minni. Þegar maður les í gegnum tillöguna sjálfa þá er bara talað um smávirkjanir án þess að segja að átt sé við C-flokkinn. Ég spyr: Er það ekki meiningin að hv. þingmenn sem flytja þessa tillögu eigi fyrst og fremst við þennan minnsta flokk af smávirkjunum? Þær eru hinar raunverulegu smávirkjanir fyrir mér. Hitt vildi ég, eins og ég segi, kalla einhverju allt öðru nafni.