151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þriðji sunnudagur í nóvember er alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa og er undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Dagurinn er til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni, en ekki síst til þess að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita bæði hjálp og björgun. Eins og svo margt annað verður minningardagurinn með óhefðbundnu sniði vegna Covid-19. Úti um allt land verða minningarathafnir hjá slysavarnafélögum Landsbjargar ásamt fleiri viðbragðsaðilum. Það eru nefnilega óhugnanlega margir eða í kringum 4.000 manns sem deyja í umferðinni og hundruð þúsunda slasast í heiminum á hverjum einasta degi. Svo eru þeir sem slasast alvarlega og þurfa að takast á við margs konar áföll og sorgir vegna þessara slysa.

Herra forseti. Við þurfum öll að líta í eigin barm enda fylgir því mikil ábyrgð að keyra bíl. Hvernig hegðum við okkur í umferðinni? Tölum við í símann undir stýri, skoðum Facebook eða sendum jafnvel SMS? Besta slysavörnin er að við hegðum okkur vel í umferðinni en ætlum ekki bara öðrum að hegða sér skikkanlega.

Í tilefni þessa dags sem er á sunnudaginn verð ég líka að minnast á þá viðbragðsaðila sem koma að umferðarslysum; lögregluna, sjúkraflutningafólkið, björgunarsveitirnar, heilbrigðisstarfsfólkið og svo marga fleiri því starf þeirra er bæði erfitt og ómetanlegt og fyrir það ber okkur að þakka.

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að leiða hugann að því hvers vegna við höldum slíkan minningardag, að við tökumst á við þá ábyrgð sem fylgir því að vera ökumaður og gleymum ekki þeirri alvöru sem því fylgir. Látum það ekki henda okkur að vera kærulaus því að mörgum banaslysum er hægt að afstýra ef hvert og eitt okkar keyrir með aðgát.

Að lokum vil ég bara minna á það að í mínum heimabæ verður kertafleyting við tjörnina kl. sex og bein útsending á Facebook-síðu slysavarnadeildarinnar Varnar frá Siglufirði kl. sjö. Ég hvet fólk til að taka þátt með því að setja út friðarkerti.