151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það var erfitt að horfa upp á lokamínúturnar í leik Íslands og Ungverjalands í gærkvöldi. Úrslitin sem ungverska liðið náði með ótrúlegum hætti að knýja fram undir lokin gera það að verkum að Ísland endurtekur ekki næsta sumar ævintýrið frá því 2016, sem okkur er líklega öllum í fersku minni. Mér fannst enn erfiðara að horfa upp á vonbrigði íslensku leikmannanna sem hafa lagt allt undir. En svona er lífið. Þessi leikur, úrslit hans og afleiðingar fara í minningabankann, í hólfið sem verður merkt árinu 2020. Og það er einhvern veginn næstum því viðeigandi.

Rétt eins og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sagði í leikslok markar þessi leikur engin endalok þrátt fyrir gríðarleg vonbrigði, síður en svo. Þetta lið hefur skrifað upphafskaflana í stórkostlegri sögu og sú saga verður skrifuð áfram næstu árin. Það er hins vegar mikilvægt að muna að svona árangur kemur ekki af sjálfu sér, ekki hjá neinum og allra síst hjá örþjóð eins og okkur. Til að tryggja veru Íslands meðal afreksþjóða á íþróttasviðinu þarf sterka sýn, gott utanumhald og öflugt íþróttastarf um allt land.

Síðar í dag mun ég fyrir hönd þingflokks Viðreisnar og nokkurra þingmanna annarra flokka flytja tillögu sem felur í sér að hæstv. menntamálaráðherra verði falið að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélög um land allt.

Í gær flutti hv. þm. Helga Vala Helgadóttir tillögu fyrir hönd Samfylkingar um að hæstv. menntamálaráðherra verði, í samráði við hæstv. fjármálaráðherra, falið að leggja fram frumvarp til laga um launasjóð fyrir afreksíþróttafólk. Ég vona og ég trúi því að þingheimur tryggi skjóta og jákvæða afgreiðslu beggja þessara tillagna. Það eru miklir hagsmunir fyrir okkur öll í húfi.

Að lokum fagna ég því að loksins hefur ríkisstjórnin samþykkt að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um byggingu á nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)