151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni móttöku sveitarfélaga á fólki sem sækir hér um alþjóðlega vernd. Það eru til tvær tegundir af fólki sem leitar að meira öryggi og betra lífi. Það eru þau sem koma hér af sjálfsdáðum, og þau sem við bjóðum velkomin. Þau sem koma af sjálfsdáðum eru oft kölluð hælisleitendur, en þau sem við bjóðum velkomin og veljum eru flóttafólk.

Það eru ekki mörg ár síðan sveitarfélög á Íslandi kappkostuðu að bjóða flóttafólk velkomið í sitt samfélag. Þau buðu flóttafólkið velkomið og sögðust vera tilbúin að taka á móti þeim og sendu ríkisstjórninni svar um að þau vildu taka á móti fleira flóttafólki. En þegar fólk kemur af sjálfsdáðum og er í svipuðum ef ekki sömu aðstæðum, þá segja sveitarfélögin: Nei, þetta fólk er ekki velkomið til okkar.

Það eru aðeins þrjú sveitarfélög á Íslandi sem taka á móti þessu fólki og aðstoða það meðan það bíður úrlausnar sinna mála. Það eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Reykjavík. Sú er staðan að Reykjanesbær er með samning upp á að taka á móti 70 einstaklingum. En af því að engin sveitarfélög á Íslandi segja já við beiðni Útlendingastofnunar um að taka á móti þessu fólki er verið að leigja, án samráðs við Reykjanesbæ, húsnæði í sveitarfélaginu og hýsa þar yfir 100 einstaklinga til viðbótar við þennan samning. Það er ekki hægt og við þessu verður að bregðast. Þetta eykur álagið á félagsþjónustuna, sem hefur nóg að gera fyrir, sem vill taka vel á móti þessu fólki. Ef ekki er hægt að finna lausn á þessu verður í það minnsta að stækka útibú Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar og fleiri stofnana á vegum ríkisins á svæðinu.