151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Alma Möller landlæknir lýsti þeirri skoðun sinni í gær að kórónuveirufaraldurinn hefði dregið fram ákveðna veikleika í heilbrigðiskerfinu. Kerfið væri lítið og mönnun ekki nægileg til að veita almennilega grunnþjónustu, auk þess sem plássleysi væri viðvarandi. Þetta þekkjum við. Hún tjáði þá skoðun sína að kerfið þyrfti að vera betur í stakk búið og að skoða þyrfti aðkomu sjálfstætt starfandi eininga til að koma til móts við þarfir sjúklinga og til að takast á við afkastagetu og biðlistavanda. Mér fannst hressandi að heyra þetta í gær enda hefur þingflokkur Viðreisnar allt þetta kjörtímabil kallað eftir þroskaðri umræðu um heilbrigðismálin almennt og að pólitíkin axli ákveðna ábyrgð; að þessari plástrapólitík verði hætt og lausnir fundnar til langframa.

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram fjölda fyrirspurna, ályktana og frumvarpa með það að markmiði að leysa flækjurnar. Við höfum leyft okkur að kalla allar hendur á dekk til að leysa þjáningar fólks sem hefur mánuðum og jafnvel árum saman verið á biðlista, t.d. eftir liðskipta- og mjaðmaaðgerðum. En allar þessar tillögur okkar hafa verið felldar eða svæfðar. Það tengist því líklega að við erum í minni hluta því að þannig pólitík er enn ríkjandi á stjórnarheimilinu að það virðist skipta máli hvaðan góðar tillögur koma.

Það er ekki of seint fyrir ríkisstjórnina að breyta rétt og sérstaklega ekki fyrir þá flokka sem hafa kennt sig við einstaklingsfrelsi en lítið stundað það, hvað þá stutt það, enda bera atkvæðagreiðslur þeirra þess merki. Hér hafa þeir fellt allar tillögur til þess að laða að sjálfstætt starfandi aðila og opinbera aðila til að lina þjáningar fólks, losa fólk undan þeirri þjáningu að vera á biðlista. Við þurfum að fókusera á neytandann sjálfan, líf hans og heilbrigði. Við þurfum að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins með því að nýta bæði sjálfstætt starfandi heilbrigðisfólk sem og aðila innan hins opinbera kerfis. Að mínu mati þolir málið ekki frekari bið og hvað þá meira af biðlistum.