151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna að iðnnám og allt starfsnám á Íslandi hefur verið í mikilli sókn á síðustu tveimur, þremur árum. Við sjáum mikla aukningu, sér í lagi hjá þeim sem eru aðeins eldri og núna eru um 50% þeirra sem voru að koma inn í framhaldsskólakerfið að velja iðn-, starfs- og tæknigreinar. Ég myndi því segja varðandi áhyggjur hv. þingmanns af samkeppnishæfni að samkeppnin er að aukast það mikið, þ.e. svo margir eru að koma inn í námið, að ég held að hagur þessara aðila sé allur að vænkast og ég get fullvissað hv. þingmann um að ég mun ávallt standa vörð og vaktina með menntun og þeim iðnaðarmönnum sem hafa verið að fjárfesta í sínu námi.