151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það sem hefur verið að gerast á framhaldsskólastiginu er að framhaldsskólarnir hafa verið að forgangsraða í þágu þeirra sem hafa verið í verk- og listnámi. Það staðnám hefur verið til staðar nánast allan faraldurinn vegna þess að það er erfiðara að kenna slíkt nám í fjarnámi. Það hefur tekist býsna vel.

Ég vil líka nefna það varðandi efsta stig grunnskólans að það er auðvitað svo að nemendur geta verið 25 inni í kennslustofu. Það eru ekki nándarmörk ef þau nota grímu. Það er mjög mikilvægt. Við settum það líka á varðandi fyrsta árs nema á framhaldsskólastigi. En það sama á ekki við varðandi grímunotkun og nándarmörk. En við erum nú að endurskoða þetta allt og ég fór á ríkisstjórnarfund áður en ég kom hér í þingið og vil bara ítreka það að vellíðan barna og ungmenna skiptir ríkisstjórnina mestu máli varðandi forgangsröðun og hvernig við ætlum að nálgast þetta stóra verkefni. Við erum að samræma þessar reglur þessa dagana þvert á skólastig, og ég er mjög vongóð um að við munum fara í meira staðnám. Ég get fullvissað hv. þingmann um að rektorar og skólameistarar búa yfir miklu hugrekki og ætla sér að taka þátt í þessu verkefni með stjórnvöldum.