151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:39]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra hafa talað fyrir og beinlínis kallað eftir opinni, gegnsærri og gagnrýninni umræðu um sóttvarnaaðgerðir og afleiðingar þeirra. Því ber að fagna enda eru þetta ótroðnar slóðir sem verið er að feta. Inngrip stjórnvalda í daglegt líf fólks vegna sóttvarna er af þeirri stærðargráðu að líkja mætti því við að veröldin væri orðin að risavaxinni skurðstofu. Eitt ár getur verið afstætt hugtak. Eitt ár í lífi barns eða ungmennis virðist lengri tími en eitt ár fyrir okkur sem eldri erum. Fyrir þau er upplifunin sú að liðin sé heil eilífð síðan veiran dúkkaði upp hérlendis í febrúar. Það er mikilvægt að setja sig í spor barna þegar teknar eru ákvarðanir fyrir þeirra hönd um líf þeirra og heill. Það er mikilvægt að spyrja þau sömuleiðis og hafa þau með í ákvörðunum að því marki sem þroski þeirra leyfir. Eins er mikilvægt að börn séu upplýst um gang mála þegar dramatískar breytingar verða á lífi þeirra og nærumhverfi eins og við núverandi aðstæður.

Nú í þriðju bylgju faraldursins var í fyrsta sinn komið á grímuskyldu í skólum og börn alveg niður í tíu ára gömul skikkuð til að bera grímu fyrir vitum allan skóladaginn á meðan þau eru innan dyra. Sóttvarnalæknir hefur sagt, og það stendur á forsíðu Covid-síðu sóttvarnayfirvalda, covid.is, að grímur geri gagn ef þær séu notaðar rétt, annars geti þær gefið falskt öryggi sem gerir meira ógagn en gagn.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvaða gögn lágu að baki þeirri ákvörðun að setja gímuskyldu á börn? Var einungis tekið tillit til sóttvarna við þá ákvarðanatöku eða voru aðrir hagsmunir einnig teknir til greina? Var byggð inn í ákvörðun um grímuskyldu nægileg fræðsla fyrir börn svo að grímunotkun þeirra myndi gera meira gagn en ógagn? (Forseti hringir.) Hver var heildarmyndin sem litið var á? Hvaða gögn liggja að baki þeirri ákvörðun stjórnvalda að ung börn skuli bera grímu á skólatíma?