151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það hvað börnin okkar geta í raun og veru og hvers þau eru megnug. Ég held að þau hafi sýnt það og sannað síðan Covid-19 kom upp að þau eru býsna mögnuð. Í þeim samtölum og fundum sem ég er búin að eiga við þau er svo mikil seigla, það er svo mikið hugrekki og það er svo mikið þor. Þau vilja halda áfram. Þau vilja fara í skólann og vilja fara í sín próf, hvort sem það eru heimapróf eða staðpróf. Þau vilja auðvitað gæta að öryggi og sum þeirra eru í þannig aðstöðu að það eru undirliggjandi sjúkdómar á heimilum og við tökum tillit til þess.

Ég nefndi það að við hefðum verið að vinna með nokkur gildi. Umhyggja er eitt, þrautseigja er annað og sveigjanleiki er þriðja gildið sem við erum að nota og með þessum gildum náum við svolítið utan um þetta og að tryggja þátttöku unga fólksins við þessa ákvarðanatöku. Ég ákvað það núna þegar þriðja bylgjan hófst að þau yrðu bara við þetta borð. Ég man það mjög vel þegar ég var sjálf í grunnskóla og framhaldsskóla og tók mjög virkan þátt í öllu félagslífi að við fengum að sitja við borðið. Það er bara þannig að ef þau sitja við borðið, af því að þessar ákvarðanir varða þau svo mikið, þá tel ég að við höfum náð að forgangsraða rétt í þessum aðgerðum.