151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og fagna henni. Mér hefur þótt hún góð. Það sem stendur upp úr er að það er alveg ljóst að allir eru að gera sitt besta. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að hæstv. menntamálaráðherra er vakin og sofin yfir stöðunni. Mig langar til að beina athyglinni aðeins að stöðu kennara og skólastjórnenda og hvernig aðstæður þeirra eru til að mæta þessum þörfum nemenda sem við höfum rætt mikið, fyrst og fremst út frá þeirri staðreynd að skólastarfið þarf að standa undir sínu. Við vitum að aðstæður nemenda til heimalærdóms eru mjög mismunandi og það leggja allir áherslu á að koma þeim sem fyrst í hús. Síðan vitum við hve mikilvægur félagslegi þátturinn er. Þetta hefur verið margrætt hér.

Mig langar aðeins að tala um það sem heyrist að kennarar leggi mikla áherslu á fyrirsjáanleika og upplýsingaflæði. Ólíkt því sem var í vor, þegar lengri fyrirvari var á breytingum, gerðist það nú í haust að hlutirnir breyttust mjög hratt, þannig að tilfinning fyrir festu og vissu hvarf í einhvern ákveðinn tíma. Það fór óneitanlega mikill tími og orka hjá skólastjórnendum, og klárlega menntamálayfirvöldum líka, í að fylgjast með, tími sem hefði kannski betur mátt verja nákvæmlega í þessi atriði sem við erum að tala um að séu svo mikilvæg fyrir nemendur. Ég spyr — það er nú eitthvað vitlaus tími hér því að ég sé að ég er búin með tímann, sem getur ekki verið — en alla vega langar mig að spyrja um ólíkar sviðsmyndir í þessum málum. Ef svo fer að smitin rjúka upp aftur, sem er því miður ekkert ólíklegt, er þá eina hugmyndin að hverfa aftur í sömu takmarkanir og við höfum búið við? Hefur hæstv. ráðherra sannfæringu fyrir því að það sé rétta leiðin? Eða búum við núna, í ljósi þeirrar reynslu sem við þó höfum fengið á því ári sem er að líða, að upplýsingum sem gera okkur fært að skoða einhverjar aðrar sviðsmyndir? Er hægt að eiga það samtal? Er það kannski í gangi núna við skólastjórnendur þannig að fyrirsjáanleikinn og festan sé meiri, jafnvel þó að við förum aftur í þann rússíbana sem aukið smit er? Við vonum auðvitað að svo verði ekki.