151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nemendur hafa mikinn áhuga á því að mæta aftur í skólana, ég fullyrði það hér. Það er það sem þeir hafa tjáð mér. Það sem hv. þingmaður á líklega við er skipulag þessara prófa á háskólastiginu. Ég veit til þess að nemendur og stjórn skólans hafa verið að ræða um þessi mál. Auðvitað er það svo að þegar prófin verða haldin þarf að huga að sóttvörnum. Nemendur höfðu áhyggjur af því að ekki væri verið að gera það, en ég hef verið fullvissuð um að það sé tryggt.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að það eru mismunandi leiðir til þess að klára námsmatið. Margir háskólar halda heimapróf og einnig er verkefnum skilað í fjarnámi. Ég legg mikla áherslu á að það sé sveigjanleiki, bæði hjá háskólanum sjálfum og líka hjá nemendum. Ég treysti hins vegar nemendum fyllilega til þess að standa sig. Þau hafa gert það allan þennan tíma og ég er alveg viss um að þau komist í gegnum þetta. En þau gera það líka með því að stjórnvöld og háskólarnir sýni þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er.