151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

kjötrækt.

97. mál
[13:49]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hingað upp og óska flutningsmanni þessa máls innilega til hamingju og okkur öllum. Enda, eins og komið hefur fram í umræðum um þetta frumvarp um kjötrækt, er þetta mikilvægt fyrir það stóra hagsmunamál sem við ræðum hér oft, kannski ekki nógu oft, sem eru umhverfisáhrifin og loftslagsmálin. Kjötrækt er stór lausn í átt að því. Dýraverndarsjónarmið eru, eins og tíundað hefur verið hér, einnig mikilvæg og kjötrækt er mun siðlegri leið til að nálgast það að vera kjötæta en núverandi fyrirkomulag. Neysluvenjur eru jú að breytast hjá fólki og þetta er spennandi viðbót inn í þá flóru matar sem við höfum nú þegar. Ég hef svo sem ekki mikið meira um þetta að segja, nema aftur bara: Þetta er flott mál. Ég styð það.